Vel gengur að setja upp vélbúnað í svonefndri litlu verksmiðju.
Ljósm. Smári Geirsson

Um þessar mundir er unnið hörðum höndum að uppsetningu vélbúnaðar í nýrri fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Um er að ræða svonefnda litla verksmiðju sem er samansett af tveimur framleiðslulínum sem hvor um sig afkastar 190 tonnum á sólarhring eða 380 tonnum samtals. Þessari litlu verksmiðjueiningu er ætlað að vinna afskurð frá fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar auk þess sem áformað er að vinna hágæðahráefni í henni og sinna ýmsum þróunarverkefnum m.a. í samstarfi við MATÍS. Verksmiðjan kemur frá HPP (Hedinn Protein Plant) sem er dótturfélag vélsmiðjunnar Héðins.

Yfir 20 iðnaðarmenn vinna að uppsetningu verksmiðjunnar og er þar um að ræða vélvirkja, rafvirkja og pípulagningarmenn. Að auki hefur að undanförnu verið unnið að því að tengja nýbygginguna, sem verksmiðjan er í, við þau hús sem fyrir voru. Nýbyggingin er 2000 fermetrar að stærð og er þessa dagana verið að hefja framkvæmdir við frágang á umhverfi hennar.

Iðnaðarmennirnir sem eru að störfum koma frá Héðni og fleiri iðnfyrirtækjum. Rafvirkjar koma frá Straumbroti og Launafli og járniðnaðarmenn frá G. Skúlasyni og HD. Þá koma pípulagnigningarmennirnir frá Fjarðalögnum.

Að sögn Hafþórs Eiríkssonar verksmiðjustjóra er vonast er til að unnt verði að prufukeyra litlu verksmiðjuna í byrjun september og að hans sögn verður það afar spennandi. Litla verksmiðjan er nefnd próteinverksmiðja og það sem einkennir hana er ekki síst tvennt; hagkvæmni og minna umfang. Verksmiðjan er 30% minni að umfangi en hefðbundin verksmiðja og munar um minna.

Fyrir utan litlu verksmiðjuna verða gerðar breytingar á núverandi verksmiðju og hún uppfærð. Hún mun afkasta 2.000 tonnum á sólarhring þegar framkvæmdum lýkur. Að sögn Hafþórs mun búnaður í stóru verksmiðjuna byrja að berast um líkt leyti og litla verksmiðjan verður gangsett þannig að uppsetning hennar hefst um leið og uppsetningu litlu verksmiðjunnar lýkur. Vonast er til að

stóra verksmiðjan verði tilbúin í janúar eða fyrir næstu loðnuvertíð. Á meðan á öllum þessum framkvæmdum stendur verður haldið áfram vinnslu í þeirri verksmiðju sem fyrir er.

Ýmsar nýjungar verða í verksmiðjunum ásamt því að eldri tæki verða endurnýjuð til að auka afköst og hagkvæmni. Verið er að endurnýja pressur og sjóðara ásamt því að eimingarafköst verða aukin. Samið var við Héðin um kaup á gufuþurrkara fyrir stóru verksmiðjuna sem verður eins uppbyggður og slíkur þurrkari sem verður í litlu verksmiðjunni. Þurrkari eins og þessi hefur ekki áður verið settur upp í hefðbundinni fiskimjölsverksmiðju en hann notar mun minni orku en þurrkarar af eldri gerð. Síldarvinnslan og Héðinn hafa átt í afar góðu samstarfi og hafa menn tröllatrú á að það verði farsælt og skili jákvæðri niðurstöðu.

Það eru spennandi tímar framundan hjá Síldarvinnslunni á sviði framleiðslu á fiskimjöli og lýsi. Fróðlegt verður að sjá hvernig litla verksmiðjueiningin virkar og hvaða möguleika hún skapar og þá verður ekki síður áhugavert að fylgjast með því þegar stóra verksmiðjan hefur starfsemi fyrir alvöru sem væntanlega verður á komandi loðnuvertíð.