Vestmannaey VE er nú í slipp í Reykjavík. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Eins og lesendum heimasíðunnar er í fersku minni þá kom upp eldur í vélarúmi ísfisktogarans Vestmannaeyjar VE 27. október sl. Miklar skemmdir urðu á annarri aðalvél skipsins og hefur að undanförnu verið unnið að viðgerð á henni í Reykjavík.

Guðmundur Alfreðsson, útgerðarstjóri Bergs-Hugins, hefur dvalið í Reykjavík og haft umsjón með viðgerðarvinnunni. Segir Guðmundur að kóvídfaraldurinn hafi haft áhrif á viðgerðarferlið eins og svo margt annað. “Það vantar ennþá varahluti frá Japan. Þeir eiga að vera einhvers staðar á leiðinni en það hefur tekið mun lengri tíma að fá þá en reiknað var með. Skipið fór í slipp í Reykjavík sl. fimmtudag og þar hefur hefðbundnu viðhaldi verið sinnt. Ég geri ráð fyrir að skipið fari niður úr slippnum á morgun og þá fer væntanlega endurnýjuð vélin um borð. Menn gera sér vonir um að viðgerðarvinnunni ljúki og Vestmannaey geti haldið til veiða um miðjan febrúar,” segir Guðmundur.