Makrílvinnsla í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Ljósm. Hákon Ernuson

Það gengur vel að vinna makrílinn í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Vilhelm Þorsteinsson EA kom með 1.500 tonn í morgun og reiknað er með að Beitir NK verði kominn með góðan afla þegar vinnslu úr Vilhelm lýkur. Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu, segir að vertíðin hafi gengið vel hingað til og skipin hafi komið með hátt í 20.000 tonn til Neskaupstaðar þannig að það sé búinn drjúgur hluti af kvótanum. „Það verður unnið á vöktum alla verslunarmannahelgina í fiskiðjuverinu þannig að starfsfólkið þar mun missa af dagskrá Neistaflugsins að miklu leyti. Það hefur verið nánast samfelld vinnsla og það virðist ekkert lát vera á því. Beitir er kominn með um 1.000 tonn á miðunum og hann verður örugglega kominn þegar Vilhelm klárast. Makríllinn er heilfrystur, hausaður og flakaður allt í senn. Hér getur enginn kvartað undan vertíðinni nema að það er býsna langt að sækja um þessar mundir. Bátarnir eru að sigla hátt í 600 mílur á miðin en veiðisamstarf þeirra báta sem landa hjá Síldarvinnslunni er afar jákvætt og skiptir miklu máli,“ segir Jón Gunnar.