Pökkun í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hf.  Ljósm. Hákon ViðarssonÞriðjudaginn 28. janúar  var undirritaður samningur á milli Pelagos p/f í Færeyjum og Skagans hf. á Akranesi. Felur samningurinn í sér að Pelagos festir kaup á á vinnslukerfi fyrir uppsjávarfisk frá Skaganum fyrir nýtt fiskiðjuver sem rísa skal í Fuglafirði.  Er ráðgert að fiskiðjuverið muni geta framleitt 600 tonn af frystum afurðum á sólarhring til að byrja með en síðan verði afköstin aukin upp í 1000 tonn. Gert er ráð fyrir að fiskiðjuverið geti tekið til starfa í ágústmánuði á þessu ári.

Hið nýja fiskiðjuver mun rísa við hlið fiskimjölsverksmiðjunnar Havsbrun í Fuglafirði en Havsbrun er einn eigenda hins fyrirhugaða vers ásamt útgerðarfélögunum Christian í Grjótinum og Framherja.

Samningurinn sem hér um ræðir hljóðar upp á vel á þriðja milljarð króna og er að mörgu leyti sambærilegur þeim samningi sem gerður var um byggingu fiskiðjuvers Varðinn Pelagic á Suðurey í Færeyjum. Skaginn lauk byggingu fiskiðjuvers Varðinn árið 2012 og tók það á móti um eitt hundrað þúsund tonnum af hráefni til vinnslu á síðasta rekstrarári.

Grunnur að samningunum um byggingu þessara tveggja færeysku fiskiðjuvera var lagður í Neskaupstað. Í báðum tilvikum hittust samningsaðilar þar, kynntu sér starfsemi fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar og í kjölfarið var sest að samningaborði. Umræddur samningur við Pelagos var mótaður á skrifstofum Síldarvinnslunnar nú í byrjun árs.  Þannig hefur Síldarvinnslan lagt sitt af mörkum til að tryggja að þessir mikilvægu samningar gætu náð fram að ganga og að hið íslenska hugvit væri selt úr landi öllu þjóðfélaginu til hagsbóta. Ingólfur Árnason framkvæmdastjóri Skagans segir að samvinnan við Síldarvinnsluna í tengslum við þessa samninga hafi verið einstaklega góð og það hafi skipt miklu máli fyrir samningsaðila að hafa aðgang að allri þeirri þekkingu og reynslu sem starfsmenn fyrirtækisins búa yfir. Þá leggur Ingólfur áherslu á að sú tækni og það hugvit sem nú hefur verið selt til Færeyja hafi verið þróað í nánu samstarfi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á borð við Síldarvinnsluna og iðnfyrirtækja eins og Skagans. Það sé einkar ánægjulegt að sjá hve þetta samstarf hefur borið ríkulegan ávöxt og leitt til farsælla viðskipta út fyrir landsteinana. 

Systurfyrirtækin Skaginn hf. og Þorgeir & Ellert hf. á Akranesi munu leiða starfið við uppbyggingu fiskiðjuversins í Fuglafirði en fjölmörg önnur íslensk fyrirtæki munu einnig koma að verkefninu. Má þar nefna fyrirtæki á borð við Kælismiðjuna Frost á Akureyri, 3X Technology á Ísafirði og Slippinn á Akureyri.  Fyrir þessi fyrirtæki er samningurinn um byggingu fiskiðjuversins afar dýrmætur auk þess sem hann sýnir svart á hvítu hve íslensk þekking á sviði vinnslu sjávarfangs er mikils metin.