Birtingur NK í slipp á Akureyri.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonUm þessar mundir er unnið að því að undirbúa fiskiðjuverið og fiskimjölsverksmiðjuna  í Neskaupstað fyrir væntanlega síldar- og makrílvertíð.Þá er einnig verið að dytta að uppsjávarskipunum fyrir vertíðina.  Að sögn Jóns Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra í fiskiðjuverinu er þar unnið að ýmsum umbótum um þessar mundir. Til dæmis eru flokkarar endurnýjaðir og starfsmannaaðstaðan bætt þannig að þægilegra verður að hafa fataskipti og hreinlæti verður aukið. Þar fyrir utan er verið að hreinsa, skrapa og mála ásamt því að almennu viðhaldi er sinnt.

Jón Gunnar segir að margt fast starfsfólk fiskiðjuversins sé í fríi um þessar mundir en það mun koma aftur til starfa hresst og endurnært þegar síld- og makrílveiðin hefst síðla júnímánaðar. Lokið er við að ráða sumarstarfsfólk í fiskiðjuverið og gengu þær ráðningar afar vel.

Starfsmennirnir í fiskiðjuverinu á síldar- og makrílvertíðinni verða 96 talsins og munu þeir starfa á þrískiptum vöktum. Á hverri vakt starfa 26 beint við framleiðsluna en að auki starfa iðnaðarmenn í verinu sem fylgjast með öllum tækja- og vélbúnaði og sjá til þess að hann sé ávallt í fullkomnu lagi.

Sömu sögu er að segja af fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað. Guðjón B. Magnússon verksmiðjustjóri í Neskaupstað segir að framleiðsluhléið núna sé kærkomið eftir loðnu- og kolmunnavertíð. Það hafi verið kominn tími til að yfirfara og lagfæra ýmislegt í verksmiðjunni og nú sé unnið að því. Þá sé ávallt nauðsynlegt að þrífa verksmiðjuna með reglubundnum hætti og nú sé gott tækifæri til þess. Öllum þessum verkum verður lokið áður en síldar- og makrílvertíðin hefst.

Ekki er gert ráð fyrir að að fiskimjölsverksmiðjurnar á Seyðisfirði og í Helguvík verði starfræktar á vertíðinni enda er öllum afla landað til manneldisvinnslu og þeirri vinnslu er sinnt í fiskiðjuverinu í Neskaupstað og úrgangur og afskurður bræddur þar.

Jafnframt er unnið að viðhaldi og lagfæringum á uppsjávarskipunum Birtingi NK, Beiti NK og Berki NK.  Skipin hafa verið í slipp á Akureyri.