Þegar loðnuskipin fá frið á miðunum er aflinn gjarnan góður og nú er öll áhersla lögð á að vinna hrogn úr loðnunni. Í morgun var verið að vinna hrogn úr afla Birtings í Neskaupstað og gekk það vel. Drjúgur hluti hrognanna taldist vera vel þroskaður og er þá rætt um að þau hafi náð Japansgæðum. Þegar vinnslu úr afla Birtings lýkur í kvöld hefst vinnsla úr afla Barkar sem liggur í höfninni og bíður. Fyrir utan eigin vinnslu tekur Síldarvinnslan við hrognum frá Eskju og annast pökkun og frystingu á þeim.
Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að almennt megi segja að hrognavinnslan gangi vel og farmarnir sem nú berist að landi skili miklu af hrognum. Þá sé stór hluti hrognanna í úrvalsgæðaflokki.
Í Helguvík eru hrogn unnin í samvinnu við Saltver. Að sögn Guðjóns Helga Þorsteinssonar gengur hrognavinnslan vel þar. „Við erum að ljúka við að skera úr Vilhelm Þorsteinssyni og við kláruðum Beiti í gærkvöldi,“ sagði Guðjón. „Það er að koma mikiðaf fallegum hrognum úr þessu og hrygnuhlutfallið í aflanum er býsna hátt. Þetta er alveg eins og þetta á að vera,“ sagði Guðjón að lokum.
Veiðiskipin byrjuðu að kasta á miðunum í morgun og fréttist að Beitir hefði fengið um 300 tonn í fyrsta kasti.