Blængur NK og Barði NK í Norðfjarðarhöfn: Ljósm: Smári Geirsson
Togarinn Barði NK hélt til Akureyrar sl. sunnudag en þar verður frystibúnaður á vinnsludekki tekinn úr skipinu að stærstum hluta og fluttur yfir í Blæng NK sem hefur verið fyrir norðan um tíma. Í stað frystibúnaðarins verður búnaði til meðhöndlunar á ísfiski komið fyrir í Barða. Ráðgert er að þessum framkvæmdum í Barða verði lokið seint í septembermánuði og þá haldi hann til ísfiskveiða.
Forsmíði á þeim hluta vinnslubúnaðarins sem fer í Blæng og kemur ekki úr Barða er að mestu lokið. Vinnslubúnaðinum verður síðan öllum komið fyrir á vinnsludekki en Blængur verður einnig útbúinn á ísfiskveiðar. Þá verður Blængur útbúinn til að geyma frystar afurðir í lest á brettum en slíkt fyrirkomulag leiðir til vinnuhagræðingar og flýtir fyrir löndun. Kössunum er raðað á brettin á vinnsludekki og brettunum er staflað í lestinni með lyftara.
Blængur ætti að geta hafið veiðar að þessum framkvæmdum loknum í lok októbermánaðar.
Eins og greint hefur verið frá er verið að selja togarann Bjart NK til Írans. Mun áhöfnin á honum flytjast yfir á Barða en áhöfnin sem verið hefur á Barða flytjast yfir á Blæng.
Það er Slippurinn á Akureyri sem sér um ofangreindar framkvæmdir í skipunum.