Fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonSíldveiðar úti fyrir Austfjörðum ganga vel. Nú er verið að landa 350 tonnum úr Bjarna Ólafssyni AK í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og hefur Bjarni þá lokið síldveiðum að sinni. Í gær var landað um 700 tonnum úr Berki NK og á undan honum landaði Beitir NK tæplega 800 tonnum. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að síldin sé stór og góð og sú síld sem landað var úr Berki í gær hafi verið afar falleg. „Síldin er bæði flökuð og heilfryst og við vinnum úr 700-800 tonnum af hráefni á sólarhring,“ sagði Jón Gunnar. „ Þessi makríl- og síldarvertíð hefur gengið alveg einstaklega vel og segja má að hafi verið samfelld vinnsla hjá okkur frá því að vertíðin hófst um miðjan júlí. Stefnt er að því að ljúka veiðum og vinnslu á norsk-íslensku síldinni um næstkomandi mánaðamót eða í byrjun október,“ sagði Jón Gunnar að lokum.