Í tilefni af því að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um uppbyggingarstarfið í Neskaupstað í kjölfar snjóflóðanna sem féllu 20. desember 1974.
Fyrir nokkru var í pistli eins og þessum greint frá því að tvö mikil snjóflóð féllu á helsta athafnasvæði Neskaupstaðar 20. desember 1974. Flóðin skildu eftir sig mikla eyðileggingu og tóku tólf mannslíf. Helstu framleiðslufyrirtæki bæjarins voru stórskemmd eða rústir einar. Atvinnulíf kaupstaðarins var lamað. Fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar hafði orðið fyrir miklu tjóni, loðnuverksmiðja fyrirtækisins hafði gjöreyðilagst og hús tveggja fyrirtækja, Bifreiðaþjónustunnar og Steypusölunnar, voru horfin af yfirborði jarðar. Þá höfðu fleiri mannvirki eyðilagst eða stórskemmst.
Strax eftir flóðin hófst umræða um hreinsunarstarf á flóðasvæðinu og hvernig mætti fá hjól atvinnulífsins til að snúast á ný. Bæjarfélagið og fyrirtækin stefndu að því að hefja endurreisnarstarf sem allra fyrst og ríkisvaldið lofaði aðstoð. Helstu verkefnin voru eftirfarandi:
- Hreinsunarstarfið á flóðasvæðunum hófst strax. Braki úr húsum og öðru því sem ónýtt var, var safnað saman og það brennt og urðað. Olía hafði dreifst um svæðið hjá loðnuverksmiðjunni og gekk seint og erfiðlega að hreinsa hana. Talið var að um 150 tonn af olíu hefðu farið í sjóinn en auk þess þurfti að safna saman miklu magni af olíumenguðum snjó. Eins fór flóðið, sem skall á verksmiðjunni, yfir geymslur þar sem varðveitt voru rotvarnar- og hreinsiefni og höfðu þau dreifst um allstórt svæði. Þarna var um að ræða nítrít, formalín og vítissóda. Mikinn mannafla þurfti til hreinsunarstarfanna og samkvæmt samtímaheimildum voru næg verkefni fyrir karlmenn á meðan þeim var sinnt.Unnið að hreinsun eftir snófljóð í mjölskemmu loðnuverksmiðjunnar. Ljósm: Guðmundur Sveinsson
- Fljótlega eftir snjóflóðin kom í ljós að unnt væri að hefja framleiðslu í niðurlagningaverksmiðju Síldarvinnslunnar tiltölulega fljótlega. Að vísu hafði ýmislegt sem tilheyrði verksmiðjunni eyðilagst eða skemmst en það átti ekki að taka langan tíma að gera verksmiðjuna starfshæfa. Áhersla var lögð á að lagfæra það sem þurfti í verksmiðjunni og hóf hún framleiðslu upp úr miðjum janúar. Öll áhersla var lögð á að leggja niður sjólax en það var vinnuaflsfrek framleiðsla og fengu allar konur sem starfað höfðu í frystihúsinu starf við niðurlagninguna.
- Einnig var lögð áhersla á að lagfæra frystihús Síldarvinnslunnar svo það gæti hafið starfsemi sem fyrst. Flóðið hafði brotið niður vélahús og vélaverkstæði frystihússins auk þess sem ýmsir hlutar hússins fylltust af snjó með tilheyrandi raski. Þegar eftir flóðin voru ráðnir iðnaðarmenn til starfa í frystihúsinu auk þess sem allmikinn fjölda verkamanna þurfti til að sinna uppbyggingunni þar. Framkvæmdir í húsinu gengu vel og var unnt að hefja fiskvinnslu þar snemma í marsmánuði eða tæplega þremur mánuðum eftir að flóðin féllu.
Unnið að byggingu nýrrar loðnuverksmiðju á nýju hafnarsvæði.
- Fljótlega eftir flóðin tók stjórn Síldarvinnslunnar ákvörðun um að endurreisa loðnuverksmiðjuna ekki á rústunum heldur byggja nýja verksmiðju á hafnarsvæðinu fyrir botni Norðfjarðar. Jafnframt var tekin ákvörðun um að flytja þangað aðra vinnslustarfsemi fyrirtækisins í framtíðinni. Það þurfti að vinna mikið undirbúningsstarf áður en unnt var að hefja byggingu verksmiðjunnar og eins þurfti að gera landfyllingu þá sem verksmiðjan yrði reist á. Sannast sagna gengu allar þær framkvæmdir sem tengdust verksmiðjunni ótrúlega vel. Að lokinni gerð landfyllingarinnar gátu byggingaframkvæmdir hafist í júlí 1975 og hinn 12. febrúar 1976 var fyrsta loðnufarminum landað í verksmiðjuna. Vinnsla hófst síðan í nýju verksmiðjunni 19. febrúar en þá var liðið eitt ár og tveir mánuðir frá því að flóðin féllu.
- Fljótlega eftir flóðin hófu Bifreiðaþjónustan og Steypusalan starfsemi á ný. Bæði fyrirtækin komu sér upp bráðabirgðaaðstöðu í söltunarhúsum Mána en þau voru í eigu Steypusölunnar.