Starfsemin á fyrsta fjórðungi ársins

 • Loðnuvertíðin var góð þrátt fyrir lítið aflamark. Vel tókst að hámarka verðmæti hráefnisins. Mest allar birgðir eru seldar en hafa ekki verið afhentar kaupendum.
 • Samkeppniseftirlitið samþykkti kaup Bergs-Hugins ehf. á Bergi ehf. hinn 25. febrúar sl. aflaheimildir Bergs voru 1.549 þíg tonn.
 • Samþykkt var á hluthafafundi í Síldarvinnslunni 26. mars sl. að afhenda SVN-eignafélag ehf. hluthöfum. Eiginfjárhlutfall Síldarvinnslunnar fór tímabundið í 58% en verður 65% eftir 9. apríl sem er arðgreiðsludagur hjá félaginu. Ófærður söluhagnaður að fjárhæð 24,2 milljónir USD verður færður á öðrum ársfjórðungi.
 • Endurfjármögnun langtímalána lauk í lok febrúar og í byrjun maí var skammtímaláni Bergs-Hugins breytt í langtímalán.
 • Þann 4. mars sl. var skrifað undir samning við Vélsmiðjuna Héðinn um fyrri áfanga framkvæmda við fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað.
 • Í byrjun apríl var gengið frá kaupum á 12,4% hlut í Runólfi Hallfreðssyni ehf. Verður félagið sameinað Síldarvinnslunni frá og með 1. júlí nk.
 • Nýr Börkur var afhentur félaginu í lok maímánaðar.

Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri fyrsta ársfjórðungs

 • Hagnaður tímabilsins var 21,1m USD.
 • Tekjur voru 52,4m USD og hækkuðu um 23,1m USD frá sama tímabili í fyrra.
 • EBITDA er 19,9m USD og EBITDA% 37,9.
 • Eiginfjárstaðan er sterk og eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins 58%.

Gunnþór B. Ingvason forstjóri:

Afkoma fjórðungsins endurspeglar mikilvægi loðnunnar í rekstri félagsins. Það er ljóst að fjárfestingar síðustu ára og framúrskarandi starfsfólk gerði okkur kleift að hámarka verðmæti loðnunnar. Áhrifa af Covid 19 fara dvínandi og erum við að sjá batamerki á flestum okkar mörkuðum. Nú brettum við upp ermar og undirbúum makríl- og síldarvertíð.

Rekstur

Tekjur á fyrsta ársfjórðungi námu 52,4m USD samanborið við 29,3m USD á sama tímabili í fyrra. Rekstarhagnaður eykst um 28,7m USD á milli tímabila sem skýrist fyrst og fremst af loðnuvertíð. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 19,9m USD eða 37,9% af rekstrartekjum, en var 8,3m USD eða 10,6% á fyrsta ársfjórðungi 2020.

Hagnaður fyrir tekjuskatt var 25,2m USD samanborið við tap að fjárhæð 9,3m USD á fyrsta fjórðungi 2020. Tekjuskattur var 4,2m USD og hagnaður fyrsta ársfjórðungs 2021 því 21,1m USD samanborið við 7,7m USD tap fyrsta fjórðungs 2020.

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 611m USD í lok fyrsta ársfjórðungs 2021. Þar af voru fastafjármunir 482m USD og veltufjármunir 129m USD.

Breyting á veltufjármunum frá lokum árs 2020 er skýrð með lækkun á handbæru fé sem nemur 35,9m USD. Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 356m USD og var eiginfjárhlutfall 58% í lok ársfjórðungsins samanborið við 68% í lok árs 2020. Lokið er við að skuldfæra 52,3m USD vegna SVN-eignafélags í reikningunum 31. mars sl. en þegar eignafélagið var afhent 9. apríl sl. hækkaði eiginfjárhlutfallið í 65%.

Heildarskuldir félagsins voru 255m USD í lok fjórðungsins og hækkuðu um 72m USD sem skýrist af framansögðum aðgerðum vegna SVN-eignafélags. Vaxtaberandi skuldir voru 123,4m USD og hækkuðu um 7,5m USD frá áramótum.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 9,3m USD á fyrsta ársfjórðungi 2021 en var 22,3m USD á fyrsta fjórðungi 2020. Fjárfestingarhreyfingar voru 54m USD á fyrsta ársfjórðungi og skýrast þær helst af kaupunum á Bergi ehf. og smíði á nýjum Berki NK.

Meginniðurstöður í íslenskum krónum

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrsta ársfjórðungs ársins 2021 (1 USD=128,05 kr) verða tekjur 6,7 milljarðar króna, EBITDA 2,5 milljarðar og hagnaður 2,7 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 31. mars 2021 (1 USD=126,31 kr) verða eignir samtals 77,2 milljarðar króna, skuldir 32,3 milljarðar og eigið fé 44,9 milljarðar.

Samþykkt árshlutareiknings

Árshlutareikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Síldarvinnslunnar 31. maí 2021. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS- International Financial reporting Standards).

Nánari upplýsingar veitir Gunnþór B. Ingvason, forstjóri