Starfsemin á þriðja fjórðungi ársins

• Vinnsla í fiskiðjuverinu hefur verið nánast óslitin síðan 25. júní og gengið vel

• Afurðir voru 37 þúsund tonn á ársfjórðungnum

• Makrílveiðar voru erfiðari en árið áður.

• Makríllinn var unnin í verðminni afurðaflokka

• Veiðisamstarf skipa skipti sköpum við makrílveiðarnar

• Veiðar og vinnsla á norsk íslenskri síld gengu vel. Stutt var að sækja á miðin og markaðir sterkir

• Samruni Runólfs Hallfreðssonar ehf. og Síldarvinnslunnar frá 1. júlí samþykktur

• Bergur VE var seldur Vísi hf.

            .

Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri þriðja ársfjórðungs og fyrstu 9 mánaða ársins

  • Rekstrartekjur á þriðja ársfjórðungi voru 72,0m USD og 171,4m USD á fystu níu mánauðum ársins.
  • EBITDA á þriðja ársfjórðungi var 27,0m USD og 59,7m USD á fyrstu níu mánuðum ársins.
  • Hagnaður þriðja ársfjórðungs var 17,3m USD en 69,9m USD á fyrstu níu mánuðum ársins. Þess ber að geta að 23,6m USD eru vegna söluhagnaðar sem myndaðist við afhendingu SVN eignafélags yfir til hluthafa.
  • Heildareignir samstæðunnar í lok þriðja ársfjórðungs námu 613,8m USD og eiginfjárhlutfall var 66%.

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðunnar á þriðja ársfjórðungi voru 72,0m USD og 171,4m USD á fyrstu níu mánuðum ársins. Árið 2020 voru tekjurnar 70,1m USD á þriðja ársfjórðungi og 133,0m USD á fyrstu níu mánuðum ársins. Fjórðungarnir voru sambærilegir að mörgu leyti fyrir utan það að veiðar á makríl gengu mun betur árið 2020 en árið 2021. Voru meðal annars notuð fimm skip við veiðarnar síðasta sumar á meðan fjögur skip voru notuð sumarið 2020.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á þriðja ársfjórðungi var 27,0m USD eða 37,5% af rekstrartekjum, en á þriðja ársfjórðungi árið 2020 var EBITDA 28,8m USD eða 41,1% af rekstrartekjum. Á fyrstu 9 mánuðum ársins 2021 var EBITDA 59,7m USD eða 34,8% af rekstrartekjum til samanburðar var hún 45,1m USD á fyrstu 9 mánuðum ársins árið 2020 eða 33,9% af rekstrartekjum.

Hagnaður fyrir tekjuskatt var 20,9m USD á þriðja ársfjórðungi og 80,4m USD á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 28,2m USD á þriðja ársfjórðungi 2020 og 30,9m USD á fyrstu 9 mánuðum ársins árið 2020. Tekjuskattur var 3,5m USD á þriðja ársfjórðungi og 10,4m USD á fyrstu níu mánuðum ársins.

        Hagnaður þriðja ársfjórðungs 2021 nam því 17,3m USD og 69,6m USD á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við hagnað upp á 22,9m USD á þriðja ársfjórðungi 2020 og 25,4m USD hagnað fyrstu níu mánuði ársins 2020.

Efnahagur

Heildareignir námu 613,8m USD í lok þriðja ársfjórðungs 2021. Þar af voru fastafjármunir 465,1m USD og veltufjármunir 148,7m USD.

Breyting á veltufjármunum frá lokum árs 2020 skýrist helst með lækkun á handbæru fé sem nemur 25,2m USD. Á móti hafa birgðir aukist um 7,5m USD og kröfur um 13,3m USD. Fastafjármunir hafa aukist um 48,6m USD sem er að stærstum hluta vegna kaupa á öllu hlutafé í Bergi ehf.

Þá hefur nýr Börkur verið eignfærður á meðal varanlegra rekstrarfjármuna og SVN eignafélag sem heldur utan um eignarhald í hlutabréfunum í Sjóvá verið fært út úr eignarhlutum í hlutdeildarfélögum þar sem það félag hefur verið afhent hluthöfum.

Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 405,2m USD. Eiginfjárhlutfall var 66% í lok ársfjórðungsins samanborið við 68% í lok árs 2020.

Heildarskuldir félagsins voru 208,6m USD í lok ársfjórðungsins og hækkuðu um 24,7m USD. Vaxtaberandi skuldir voru 124,8m USD í lok ársfjórðungsins og hækkuðu um 8,7m USD frá áramótum og er það vegna endurfjármögnunar langtímalána.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 36,1m USD á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 en var 34,2m USD á sama tímabili árið 2020. Fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 78,2m USD á fyrstu níu mánuðum ársins. Skýrast þær helst af kaupunum á Bergi ehf. og smíði á nýjum Berki. Fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 17,4m USD. Handbært fé í lok árshelmingsins nam 64,8m USD.

Meginniðurstöður í íslenskum krónum á ársfjórðungnum

Séu niðurstöður rekstrarreiknings þriðja ársfjórðungs 2021 reiknaðar í íslenskum krónum á meðalgengi fjórðungsins (1 USD=126,3 kr) voru rekstrartekjur 9,1 milljarðar, EBITDA 3,4 milljarðar og hagnaður 2,2 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar í íslenskum krónum á gengi 30. september 2021 (1 USD=130,32 kr) voru eignir samtals 80,0 milljarðar, skuldir 27,2 milljarðar og eigið fé 52,8 milljarðar.

Samþykkt árshlutareiknings

Árshlutareikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Síldarvinnslunnar 25. nóvember 2021. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS- International Financial Reporting Standards).

Kynningarfundur 25nóvember 2021

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn á vefstreymi fimmtudaginn 25. nóvember klukkan 16:30. Streymið verður aðgengilegt á vefsíðu Síldarvinnslunnar https://svn.is/fjarfestar/streymi/. Streymið verður einnig aðgengilegt á streymisrás Síldarvinnslunnar á youtube https://www.youtube.com/channel/UC-7V1TcKj92J5Mc9OMMcFZQ. Þá verður hægt að senda spurningar á netfangið  og reynt verður að svara þeim á kynningarfundinum eftir fremsta megni.

Frá forstjóra

Reksturinn hefur heilt yfir gengið vel á árinu og á þriðja ársfjórðungi hefur starfsemin verið umfangsmikil. Nær samfleytt frá miðjum júní hefur verið unnið á 12 tíma vöktum í fiskiðjuveri fyrirtækisins við manneldisvinnslu. Það hefur mætt mikið á öllum starfsmönnum félagsins.

Veiðar á makríl voru þyngri en í fyrra en áframhaldandi veiðisamstarf gerði skipunum kleift að ná kvótum og hámarka verðmæti miðað við ástand fisksins. Norsk íslenska síldin hélt sig hér við landið. Vel gekk að veiða hana og gæði fisksins voru mikil. Bolfiskveiðar hafa gengið vel.

Markaðir fyrir framleiðsluvörur félagsins eru almennt sterkir um þessar mundir og eftirspurn góð. Vel hefur gengið að losa afurðir.

Loðnuráðgjöf Hafró var eins og sprengja sem menn fengu í fangið. Loðnuvertíðin verður risavaxið verkefni og þegar hafa verið teknar stórar ákvarðanir til að freista þess að ná að vinna þann kvóta sem gefinn var út. Það ríkir bjartsýni hvað varðar vertíðina og hún á eftir að verða mikil lyftistöng fyrir sjávarútvegsfyrirtækin, starfsfólk þeirra og samfélagið allt.

Efnahagur félagsins er sterkur. Það eru miklar sveiflur í uppsjávarveiðum og því er mikilvægt að fyrirtækin séu fjárhagslega sterk til að geta brugðist við sveiflunum með skynsamlegum hætti.

Fjárhagsdagatal

4. ársfjórðungur 2021 – 10. mars 2022

Nánari upplýsingar

Gunnþór B. Ingvason, forstjóri