• Makrílveiðin fór að mestu leyti fram innan lögsögunnar og gekk vel.
  • Veiðar á norsk-íslenskri síld gengu vel og var stutt að sækja.
  • Sala á uppsjávarafurðum hefur gengið vel.
  • Minni umsvif á bolfiskveiðum og -vinnslu vegna sumarleyfa og kvótastöðu.
  • Margir útgjaldaliðir hafa hækkað.

Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins

  • Hagnaður tímabilsins á þriðja ársfjórðungi nam 20,1 m USD og 62,8 m USD á fyrstu níu mánuðum ársins.
  • Rekstrartekjur námu 106,8 m USD á þriðja ársfjórðungi og 317,9 m USD á fyrstu níu mánuðum ársins.
  • EBITDA var 35,7 m USD eða 33,4% á þriðja ársfjórðungi og 96,4 USD eða 30,3% á fyrstu níu mánuðum ársins.
  • Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 1.083,2 m USD og eiginfjárhlutfall var 57%.

Rekstur

Tekjur á þriðja ársfjórðungi námu 106,8 m USD og 317,9 m USD á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 79,3 m USD á þriðja ársfjórðungi 2022 og 246,9 m USD á fyrstu níu mánuðum ársins 2022. Rekstrartekjur jukust þannig um 27,5 m USD á þriðja ársfjórðungi m.v. sama tímabil árið 2022, eða um 34,7%. Tekjuaukningin skýrist af því að rekstur Vísis ehf. kemur inn í tölurnar í ár.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á þriðja ársfjórðungi nam 35,7 m USD eða 33,4% af rekstrartekjum, en á þriðja ársfjórðungi 2022 var EBITDA 28,2 m USD eða 35,6% af rekstrartekjum. EBITDA eykst um 7,4 m USD á milli tímabila. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 var EBITDA 96,4 m USD eða 30,3%. Til samanburðar var hún 84,1 m USD eða 34,0% á fyrstu níu mánuðum ársins 2022.

Hagnaður fyrir tekjuskatt var 26,3 m USD samanborið við 21,5 m USD á þriðja fjórðungi 2022. Á fyrstu níu mánuðum ársins var hagnaður fyrir tekjuskatt 79,3 m USD samanborið við 79,0 m USD á fyrstu níu mánuðum ársins 2022. Tekjuskattur var 6,2 m USD og hagnaður þriðja ársfjórðungs 2023 nam því 20,1 m USD samanborið við 16,6 m USD hagnað þriðja fjórðungs 2022. Hagnaður á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 var jafn hagnaði á fyrri árshelmingi ársins 2022 eða 62,8 m USD.

Efnahagur

Heildareignir námu 1.083,2 m USD í lok september 2023. Þar af voru fastafjármunir 866,9 m USD og veltufjármunir 216,3 m USD. Í lok árs 2022 námu heildareignir 1.059,8 m USD og þar af voru fastafjármunir 873,3 m USD og veltufjármunir 186,5 m USD. Fastafjármunir dragast saman um 6,4 m USD en veltufjármunir aukast um 29,8 m USD.

 Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 617,4 m USD í lok september 2023 og var eiginfjárhlutfall 57,0%. Samanborið nam eigið fé í lok árs 2022 alls 585,3 m USD og eiginfjárhlutfallið var 55,2%.

Heildarskuldir og -skuldbindingar félagsins voru 465,8 m USD og lækkuðu um 8,7 m USD frá áramótum. Vaxtaberandi skuldir voru 297,9 m USD í lok tímabilsins og lækkuðu um 27,7 m USD frá áramótum.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 53,5 m USD á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 en var 57,2 m USD á fyrstu níu mánuðum ársins 2022. Fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 15,4 m USD og fjármögnunarhreyfingar neikvæðar um 50,8 m USD. Handbært fé í lok tímabilsins nam 64,8 m USD.

Meginniðurstöður í íslenskum krónum á þriðja ársfjórðungi og fyrstu níu mánuðum ársins 2023

Séu niðurstöður rekstrarreiknings ársfjórðungsins og fyrstu níu mánaða ársins 2023 reiknaðar í íslenskum krónum á meðalgengi tímabilsins (1 USD=137,62 kr) voru rekstrartekjur ársfjórðungsins 14,7 milljarður, EBITDA 4,9 milljarðar og hagnaður 2,8 milljarður. Fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2023 námu rekstrartekjur 43,7 milljörðum, EBITDA 13,3 milljörðum og hagnaður 8,6 milljörðum. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar í íslenskum krónum á gengi 30. september 2023 (1 USD=136,78 kr) námu eignir samtals 148,1 milljarði, skuldir 63,7 milljörðum og eigið fé 84,4 milljörðum.

Samþykkt árshlutareiknings

Árshlutauppgjör fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2023 var samþykkt á stjórnarfundi Síldarvinnslunnar 23. nóvember 2023. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS- International Financial Reporting Standards).

Kynningarfundur 23. nóvember 2023

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn á vefstreymi fimmtudaginn 23. nóvember klukkan 16:30. Streymið verður aðgengilegt á vefsíðu Síldarvinnslunnar https://svn.is/fjarfestar/streymi/. Streymið verður einnig aðgengilegt á streymisrás Síldarvinnslunnar á youtube https://www.youtube.com/channel/UC-7V1TcKj92J5Mc9OMMcFZQ/videos Þá verður hægt að senda spurningar á netfangið  og reynt verður að svara þeim á kynningarfundinum eftir fremsta megni.

Frá forstjóra

           Rekstur samstæðunnar gekk vel á ársfjórðungnum. Uppsjávarveiðar og vinnsla gengu vel en umsvif voru minni í bolfiskveiðum og vinnslu sökum sumarleyfa og kvótastöðu. Skip félagsins veiddu vel af makríl á fjórðungnum og fór veiðin að mestu fram í íslenskri lögsögu. Líkt og undanfarin ár voru skip félagsins í veiðisamstarfi á makrílvertíð sem hefur gefist vel. Makrílveiðum lauk um miðjan ágúst og við tóku veiðar á norsk-íslenskri síld. Framleiðsla uppsjávarafurða var talsverð á tímabilinu. Heilt yfir hefur sala uppsjávarafurða gengið vel, bæði á frosnum afurðum og mjöl- og lýsisafurðum.

           Bolfiskskip og vinnslur félagsins stoppuðu í rúmlega mánuð í sumar. Veiðar og vinnsla fóru vel af stað í ágúst og hafa verð á ferskum þorsk- og ýsuafurðum verið góð inn í haustið. Markaðsaðstæður fyrir sjófrystar og landfrystar afurðir eru að þyngjast. Framboð af þorsk- og ýsuafurðum úr Norður-Atlantshafi mun dragast saman á næsta ári með minnkandi veiðiheimildum. Saltfiskmarkaðir eru sterkir og þá sérstaklega á Ítalíu fyrir fullsaltaðar afurðir. Aðeins hefur hægst á sölu léttsaltaðra afurða, en við bindum vonir við að sala glæðist í kringum hátíðarnar.

Sveiflur í ytra umhverfi og á mörkuðum eru ekki nýjar af nálinni í okkar rekstri. Það er mikill styrkur fyrir Síldarvinnsluna að hafa fjölbreyttan rekstur sem gerir félagið betur í stakk búið að mæta óvæntum áskorunum. Birgðir félagsins eru bókfærðar á 89 m. USD og hafa aukist um 30 m. USD frá áramótum. Munar þar mestu um mikla framleiðslu loðnuhrogna sem enn sitja í birgðum að hluta til.

Um miðjan september tilkynnti félagið um lokun bolfiskvinnslunnar á Seyðisfirði. Rekstrarumhverfi bolfiskvinnslunnar hefur breyst hratt á undanförnum árum. Fjölmargir kostnaðarliðir hafa hækkað umtalsvert, öll fjármögnun er orðin dýrari og þorskheimildir hafa dregist saman. Samkeppnishæfni og sveigjanleiki eldri vinnslna sem ekki hafa fjárfest í nýjustu tækni er enn minni við erfiðari markaðsaðstæður.

Hlutdeildarfélag Síldarvinnslunnar, Arctic Fish, varð fyrir miklu tjóni á þriðja ársfjórðungi þegar slátra þurfti talsvert af laxi félagsins vegna lúsafaraldurs. Eins slapp lax úr einni af kvíum félagsins í sumar þegar gat kom á kvína. Síldarvinnslan á 34,2% hlut í Arctic Fish og er hlutdeild Síldarvinnslunnar í afkomu Arctic Fish á fyrstu níu mánuðum ársins neikvæð um 5,3 m. USD sem má rekja til þess tjóns sem félagið varð fyrir af þessum sökum. Það er forgangsatriði félagsins að tryggja að slíkir atburðir endurtaki sig ekki.

Í lok september var gengið frá kaupum á helmingshlut í Ice Fresh Seafood ehf. Kaupin gefa Síldarvinnslunni tækifæri til að styrkja sölu- og markaðsstarf félagsins enn frekar og færir félagið nær allri virðiskeðju sjávarútvegsins frá veiðum til neytenda.

Jarðhræringar á Reykjanesi hafa stöðvað tímabundið bolfiskvinnslu félagsins í Grindavík. Starfsmönnum hefur tekist að bjarga öllum verðmætum sem bundin voru í birgðum og hluta lausafjár. Engar sjáanlegar skemmdir hafa komið í ljós á eignum félagsins og enn sem komið er hefur ekki orðið vart við umfangsmikið tjón utan rekstrarstöðvunar bolfiskvinnslunnar.

Mikil óvissa hefur ríkt hjá starfsfólki Vísis eins og öllum íbúum Grindavíkur frá því að jarðhræringarnar hófust. Því hefur verið lögð áhersla á að halda samskiptum við starfsfólk og styðja það með upplýsingagjöf eins og frekast er kostur.

Sem fyrr segir er ekki útséð með hvert endanlegt tjón félagsins verður vegna þessara atburða enda ríkir enn óvissa með framvindu mála. Vísbendingar eru um að hættan í Grindavík sé á undanhaldi og hægt verði að hefja vinnu við að koma starfsemi félagsins í fyrra horf.

Heilt yfir er uppgjörið gott og í takt við væntingar félagsins. Aukið vægi bolfisksheimilda og fjárfestingar síðustu ára jafna út sveiflur á milli tegunda. Þrátt fyrir ýmsar áskoranir er félagið með sterkan efnahag og fjölbreyttan rekstur til að takast á við framtíðina. Sem fyrr hefur Síldarvinnslan lagt áherslu á fjárfestingar til að þjóna viðskiptavinum sínum betur en aðeins með fjárfestingu í greininni er sjávarútvegurinn í stakk búinn að verja samkeppnisforskot sitt á alþjóðlegum mörkuðum.

Fjárhagsdagatal

Ársuppgjör 2023 – 7. mars 2024
Aðalfundur 2024 – 21. mars 2024
1. ársfjórðungur 2024 – 23. maí 2024
2. ársfjórðungur 2024 – 29. ágúst 2024
3. ársfjórðungur 2024 – 21. nóvember 2024
Ársuppgjör 2024 – 6. mars 2025

Nánari upplýsingar
Gunnþór B. Ingvason, forstjóri