Barði NK hélt til Akureyrar í slipp að lokinni loðnuvertíð og var þar ýmsu viðhaldi á skipinu sinnt. Ljósm. Karl Eskil Pálsson

Nú þegar kolmunnaveiðum er lokið í bili eru uppsjávarskip Síldarvinnslunnar undirbúin fyrir makrílvertíð sem gert er ráð fyrir að hefjist um eða upp úr 20. júní. Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri útgerðar fyrirtækisins, greindi heimasíðunni frá undirbúningsvinnunni.

Beitir NK er í Norðfjarðarhöfn og þar er unnið að hefðbundnu viðhaldi skipsins auk þess sem það verður málað og snurfusað.

Börkur NK kom til Skagen 25. maí sl. en þar fer skipið í slipp hjá Karstensens skipasmíðastöðinni og framkvæmd á því ársskoðun. Gert er ráð fyrir að ársskoðunin taki um það bil þrjár vikur. Á fyrsta árinu hefur Börkur veitt um 80.000 tonn og reynst vel í alla staði.

Barði NK fór í slipp á Akureyri að lokinni loðnuvertíð og var þar ýmsu viðhaldi sinnt. Meðal annars var vélin tekin upp og skipið málað hátt og lágt.

Bjarni Ólafsson AK verður þrifinn vel og vandlega að lokinni kolmunnavertíðinni og síðan verður skipið sett í geymslu. Áhöfnin á Bjarna mun fara yfir á Barða og mun makrílvertíðin verða fyrsta verkefni hennar á því skipi.