Börkur NK að loðnuveiðum á vertíðinni í fyrra. Ljósm. Björn Steinbekk

Afli uppsjávarveiðiskipa Síldarvinnslunnar á árinu 2023 var afar góður. Börkur NK veiddi samtals 71.366 tonn, Beitir NK 70.074 tonn, Barði NK 45.510 tonn og Bjarni Ólafsson AK 8.250 tonn. Þess skal getið að Bjarni Ólafsson var einungis að veiðum hluta af loðnuvertíðinni en að öðru leyti var skipið ekki nýtt á árinu. Allar vertíðir skipanna á árinu gengu nánast eins og best var á kosið; loðnuvertíð, síldarvertíðirnar (norsk-íslensk síld og íslensk sumargotssíld), makrílvertíð og kolmunnavertíð. Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri útgerðar Síldarvinnslunnar, segir að uppsjávarveiðin á árinu hafi gengið eins og í sögu. „Það er varla hægt að hugsa sér þetta betra. Börkur og Beitir eru aflahæstu íslensku uppsjávarveiðiskipin og Barði var líka að gera það afar gott. Bjarni Ólafsson kom einungis til aðstoðar í skamman tíma á loðnuvertíðinni. Ég held að til dæmis loðnuveiðin hafi ekki getað gengið betur, það var allt hagstætt og þá ekki síst veðrið. Nýja árið byrjar líka vel. Kolmunnaveiðarnar á gráa svæðinu og í færeysku lögsögunni fara ágætlega af stað en það er gífurlegur fjöldi skipa á miðunum núna,“ segir Grétar.

Rétt er að geta þess að gamli Börkur eða Stóri Börkur eins og hann var gjarnan nefndur fiskaði yfir 70.000 tonn á ári á árunum 2000 – 2004 og reyndar var afli hans yfir 80.000 tonn á árunum 2002 og 2003.

Á myndinni kemur fram heildarafli uppsjávarveiðiskipa Síldarvinnslunnar á árunum 2018 – 2023 og afli hvers skips