Vestmannaey VE 444.
Veiðar skipa Bergs-Hugins hafa gengið vel það sem af er ári og er aflinn mun meiri en á sama tíma og í fyrra og einnig aflaverðmæti. Í ár hafa skipin tvö, Vestmannaey og Bergey, fiskað liðlega 5000 tonn en á sama tíma í fyrra var aflinn liðlega 4800 tonn. Meðalverð á kg. hefur einnig verið mun hærra í ár en var í fyrra.
Heimasíðan sló á þráðinn til Héðins Karls Magnússonar skipstjóra á Vestmannaey og spurðist frétta. Héðinn Karl er fæddur árið 1980 og lauk námi í margmiðlunarfræðum áður en hann hóf nám í Stýrimannaskólanum. „Ég hef að mestu verið á sjó frá unglingsaldri en lauk margmiðlunarnáminu um 2000 rétt áður en netbólan sprakk. Stýrimannaskólanum lauk ég árið 2008 og hef síðan verið á Vestmannaey. Hér um borð hef ég verið netamaður, stýrimaður og leyst af sem skipstjóri af og til. Margmiðlunarnámið og tölvukunnáttan kemur að ágætu gagni á sjónum enda tölvuvæðingin mikil um borð í fiskiskipum,“sagði Héðinn Karl. „Við erum nú við veiðar á Látragrunni og höfum verið þar að mestu síðustu þrjár vikurnar. Það hefur gengið vel að fiska en uppistaða aflans er ýsa. Það er heldur rólegra yfir veiðunum nú en hefur verið, fiskurinn gefur sig mest á nóttunni þessa dagana þannig að það er ekki sólarhringsveiði eins og var. Við erum komnir með um 50 tonn og okkur vantar 20 tonn til að fylla. Hér um borð eru allir kátir og menn eru nokkurn veginn búnir að jafna sig eftir þjóðhátíð,“ sagði Héðinn Karl að lokum.