Nú liggja fyrir úrslit í ljósmyndasamkeppninni sem efnt var til í tilefni af komu Barkar í fyrsta sinn til heimahafnar. Þátttakan í keppninni fór langt fram úr væntingum, en yfir 35 sendu inn myndir og voru myndirnar sem valið var úr um 200. Margar myndanna voru í háum gæðaflokki en sumar þeirra guldu þess hve líkar þær voru öðrum myndum þegar dómur var kveðinn upp. Það kom í hlut sjö manna dómnefndar að kveða upp lokaúrskurðinn og reyndist verk hennar býsna erfitt. Þegar upp var staðið varð niðurstaðan sú að eftirtaldar þrjár myndir báru sigur úr býtum, en höfundar þeirra hljóta 100 þúsund krónur í verðlaun hver:              

Börkur þar sem hann liggur fánum prýddur á Norðfirði. Ljósmynd: Björgunarsveitin Gerpir/Hlynur Sveinsson.
Börkur á siglingu á Norðfirði. Ljósmynd: Sævar Magnús Egilsson
Börn á Leikskólanum Eyrarvöllum fagna komu nýja Barkar. Ljósmynd: Jóhanna Smáradóttir

                Aðrir sem sendu myndir inn í keppnina fá fiskiöskju með gæðafiski frá Síldarvinnslunni í viðurkenningarskyni. Samband skal haft við Húnboga Sólon Gunnþórsson til að nálgast öskjuna.

                Síldarvinnslan vill þakka öllum sem sendu myndir í keppnina fyrir þátttökuna. Flestir þátttakendur hafa heimilað notkun myndanna og því munu eflaust einhverjar þeirra birtast á heimasíðu fyrirtækisins eða í fjölmiðlum. Það er úr mörgum glæsilegum myndum að velja.