Makríl landað úr Beiti NK í austfirskri blíðu. Ljósm. Eiríkur Karl Bergsson

Beitir NK kom til Neskaupstaðar aðfaranótt miðvikudags með um 1.500 tonn af makríl sem fékkst í Smugunni. Í gær ræddi heimasíðan við Geir Sigurpál Hlöðversson, rekstrarstjóra fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar, og spurði hann hvernig fiskurinn væri. „Þetta er mjög góður fiskur, sannkallað úrvalshráefni fyrir manneldisvinnsluna. Það er lítil áta í honum og það skiptir miklu máli. Við erum nú að heilfrysta og hausa og það gengur virkilega vel. Margrét EA kemur í kvöld með 1.250 tonn og síðan Vilhelm Þorsteinsson EA með 1.650 tonn. Það er engin ástæða til annars en gera ráð fyrir að þessi skip færi okkur svipaðan gæðafisk til vinnslunnar og Beitir gerði. Nú er að styttast í lok makrílvertíðarinnar og menn eru farnir að ræða um norsk-íslenska síld, en hún er næst á dagskrá. Reyndar er Barði NK þegar byrjaður að svipast um eftir síld í þessum töluðu orðum,“ segir Geir Sigurpáll.