Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonFiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði.
Ljósm. Ómar Bogason
Fyrstu kolmunnaförmunum, eftir að veiðar hófust suður af Færeyjum, var landað í fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði í fyrrakvöld. Margrét EA kom með um 2.000 tonn til Neskaupstaðar og Bjarni Ólafsson AK með um 1.800 tonn til Seyðisfjarðar. Nú er verið að ljúka við að vinna þessa fyrstu farma í verksmiðjunum og í tilefni af því ræddi heimasíðan við Hafþór Eiríksson verksmiðjustjóra í Neskaupstað og Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóra á Seyðisfirði. Fram kom hjá þeim báðum að kolmunninn væri úrvalshráefni til mjölframleiðslu en hins vegar fengist lítið lýsi úr honum á þessum árstíma. „Þegar kolmunninn er veiddur vestur af Írlandi er hann mun feitari, en eftir hrygningu leitar hann norður eftir í ætisleit og er þá heldur horaður, en vissulega er hann mishoraður á milli ára,“ segir Gunnar. Gunnar segir einnig að mjög vel gangi að vinna kolmunnann á Seyðisfirði og muni vinnslu á þessum fyrsta farmi sem þangað barst ljúka í kvöld.
 
Hafþór upplýsir að vinnsla á kolmunnanum gangi mjög vel í Neskaupstað „Við erum að ljúka við að vinna kolmunnann úr Margréti en það er von á Hákoni EA með ein 1.600 tonn síðar í dag þannig að vinnslan verður samfelld áfram. Þá virðast veiðar ganga vel og vonandi er hörkukolmunnavertíð framundan,“ segir Hafþór.