Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri SíldarvinnslunnarGunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri SíldarvinnslunnarMarkaðir fyrir íslenskar sjávarafurðir eru ekki einkamál sjávarútvegsfyrirtækja heldur skipta þeir samfélagið sannarlega miklu máli og hafa lengi gert. Þar nægir að nefna afkomu fjölda heimila vegna starfa bæði á sjó og í landi, svo ekki sé minnst á hagræn áhrif greinarinnar og mikilvægar útsvarstekjur sveitarfélaga vítt og breitt um landið.
 
Bann við sölu íslenskra sjávarafurða á markað í Rússlandi hefur mikil áhrif á sjávarútveginn og þá um leið á samfélagið í heild. Sérstaklega á sjávarpláss og íbúa þeirra. 
 
Tap útgerðarfyrirtækjanna er hlutfallslega mun minna en starfsmanna þeirra og samfélaganna sem þau starfa í.  Þjóðin verður af gjaldeyristekjum vegna minni verðmætasköpunar úr auðlindinni.  
 
Hvað snertir uppsjávarfiskinn þá er ljóst að þar standa á bak við vel stæð fyrirtæki, sem eiga að vera tilbúin að mæta sveiflum í rekstri hvort sem er í aflabresti eða erfiðum markaðsaðstæðum.  Afkoma versnar hjá þessum fyrirtækjum vegna bannsins, sem mun þá bitna á starfsmönnum, eigendum og samfélögunum sem þau starfa í.  Fjárfestingar munu dragast saman.
 
Útflutningsbannið hefur lokað fyrir sölu á frosnum sjávarafurðum til Rússlands, einhvers mikilvægasta markaðar okkar. Síldarvinnslan í Neskaupstað (SVN), það fyrirtæki sem ég þekki best, hefur unnið að því undanfarin ár að auka framleiðslu og um leið verðmæti uppsjávartegunda með því að þróa og auka framleiðslu á afurðum til manneldis úr uppsjávarstofnunum. Þær afurðir hafa verið seldar að stórum hluta til Rússlands og hafa aukið mikilvægi markaðarins verulega í veltu SVN.
 
 
 
Aðgangur að fleiri mörkuðum
 
Rússland hefur í áratugi verið einn mikilvægasti markaðurinn fyrir síldarafurðir frá Íslandi, auk þess sem markaðurinn hefur tekið á móti verulegu hlutfalli makrílsins sem Íslendingar hafa veitt og unnið síðustu árin. 
 
Þegar útflutningsbannið var samþykkt var ljóst að Íslendingar hefðu aðgang að fleiri mörkuðum en þeim rússneska fyrir síldar- og makrílafurðir. En það var líka ljóst að þeir markaðir greiða langt í frá sama verð og í Rússlandi. Það hefur tekist þokkalega að selja þessar afurðir á aðra markaði en á umtalsvert lægra verði en Rússar hefðu greitt. Verðlækkunin á síldar- og makrílafurðum nam um 35%.
 
Loðnan er sú fisktegund sem ég tel að mesta höggið verði í vegna bannsins.  Þá er ég að tala um bæði til lengri og skemmri tíma.   Þar er um að ræða mismunandi afurð eftir því á hvaða tíma loðnan er unnin.  Í upphafi vertíðar frystum við hænginn og hrygnuna á Rússlandsmarkað og Austur-Evrópu, aðrir markaðir hafa ekki viljað taka við slíkri loðnu enn sem komið er.  Þegar hrognafylling hrygnunnar hækkar er hængurinn flokkaður frá og hrygnan fryst fyrir Asíumarkað.  Síðan eru það loðnuhrognin sem við tökum í lok vertíðar og skiptast í tvo flokka eftir þroska. Svokölluð iðnaðarhrogn hafa eingöngu farið inná Rússland og Austur-Evrópu.
 
Þannig að það er auðveldara um að tala en í að komast að finna nýja markaði. Auðvitað eru fyrirtækin stöðugt að vinna með sínu markaðsfólki að samskiptum út um allan heim og leita að mörkuðum og tækifærum fyrir sínar afurðir með það huga að hámarka verðmæti þeirra.  Hvað loðnuna snertir þá höfum við alltaf þann möguleika að framleiða mjöl og lýsi.
 
Sjófrystur karfi hefur í vaxandi mæli farið til Rússlands og ljóst að fyrirtækin þurfa að leita nýrra markaða fyrir þær afurðir og breyta nýtingarstefnu fyrir fisktegundina.  Þar hljóta menn að horfa til þess að draga úr sjófrystingu og nýta karfann með öðrum hætti inná aðra markaði.  Það eykur líkur á verðlækkunum þar sem verð er háð framboði.
 
 
 Viðskiptasambönd rofna
 
Markaðir fyrir sjávarafurðir eru mjög sérhæfðir og yfirleitt tekur langan tíma að byggja upp traust viðskiptasambönd sem grundvallast meðal annars á reglubundinni vöruafhendingu og mætir bæði þörfum kaupenda og neytenda.  Alls er óvíst að það takist að viðhalda mörkuðum ef viðskipti falla niður til lengri tíma. 
 
Markaðurinn hefur sínar þarfir og uppfyllir þær eftir öðrum leiðum og inn koma nýjar vörur.  Það getur tekið langan tíma og felur í sér mikinn kostnað að vinna tapaða markaði aftur auk þess sem neyslumynstur þjóða breytist mjög hratt.
 
Útflutningsbannið á eftir að hafa víðtæk áhrif á íslenskt samfélag. Nú er loðnuvertíðin í uppnámi en markaðurinn fyrir loðnuafurðir, sérstaklega loðnuhrogn, hefur vaxið mikið í Rússlandi á undanförnum árum og keyptu Rússar um 50% hrognaframleiðslu SVN á síðasta ári. Við sjáum því fram á umtalsverðan samdrátt í sölunni sem leiðir af sér aukið framboð á aðra markaði. Það leiðir aftur til verulegrar verðlækkunar.  Verð á þessum mörkuðum er mjög viðkvæmt fyrir framboði.
 
Áhrifin viðtæk
 
Afleiðingar útflutningsbannsins hafa þegar haft mikil áhrif á íslenskt samfélag og áhrifin munu aukast á komandi mánuðum og ekki er sjálfgefið að markaðir í Rússlandi opnist aftur ef bannið dregst á langinn, svo mikið er víst.
 
Við óbreytt ástand stöndum við hjá SVN einfaldlega frammi fyrir því að draga verulega úr framleiðslu loðnuafurða til manneldis á komandi vertíð.  Stór hluti af þeirri verðmætasköpun fer í laun og meðhöndlun vörunnar, þannig að margfeldisáhrifin af þessum samdrætti eru mikil.
 
Þetta mun hitta samfélagið og starfsfólk okkar illa. Tekjur munu dragast töluvert saman hjá 80 starfsmönnum í landi og 40 sjómönnum. Lítið samfélag á borð við Neskaupstað mun finna fyrir þessum samdrætti því margfeldisáhrif launaveltunnar eru mikil og samdrátturinn snertir mun fleiri en þá sem starfa beint við sjávarútveginn.  Áhrifin teygja sig um allt samfélagið og hafa strax áhrif á þjónustufyrirtæki, verktaka og verslun á svæðinu, auk þess sem sveitarfélögin sjálf verða fyrir umtalsverðum tekjumissi.
 
Rekstur uppsjávarfyrirtækja er sveiflukenndur óháð Rússabanninu.  Við sjáum það vel í sveiflum á loðnukvóta á milli ára.  Á síðasta ári var kvótinn 360 þúsund tonn og í ár er ekki búið að úthluta neinum kvóta, árið 2008 var norsk íslenski síldarkvótinn um 240 þúsund tonn en í ár verður hann 42 þúsund tonn.  Hjá Síldarvinnslunni bíða 180 manns eftir að loðnukvóta verði úthlutað og eiga þeir mikið undir að svo verði ásamt fyrirtækinu.  Það er alveg ljóst að þessar sveiflur hafa leitt til meiri samþjöppunar aflaheimilda í uppsjávartegundum en öðrum tegundum.   Þannig eru mun færri og öflugri fyrirtæki að veiða og vinna uppsjávarfisk nú en áður.
 
Auðvitað er misjafnt hvernig þetta leggst á samfélög og starfsmenn fyrirtækjanna.  Þannig hittir þetta Fjarðabyggð, Vestmannaeyjar, Vopnafjörð, Hornafjörð, Langanesbyggð, Akranes og Reykjanesbæ hvað verst.  En ég vara menn við því að ætla að færa aflaheimildir af einum stað á annan með sértækum aðgerðum, til að minnka áfallið í einstökum byggðarlögum.  Það gerir ekkert annað en að færa vandamálið til og flytja vinnu frá einum stað á þann næsta.
 
Stöðugleiki
Það er mikilvægt að stöðugleiki ríki í kringum starfsumhverfi sjávarútvegsins.  Það er sjálfsögð krafa okkar sem vinnum við greinina að ákvarðanir sem snerta hana  séu teknar að vel ígrunduðu máli, þær fái málefnalega umræðu og hagsmunaðilum sé haldið upplýstum.  Ég tel að það hafi verið mikill skortur á því í yfirstandandi Rússamáli.
                                                                             
Gunnþór Ingvason
framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar