Línubátar að landa í Neskaupstað.  Ljósm. Guðlaugur BirgissonSumarið 2011 komu tveir yfirbyggðir línubátar til Neskaupstaðar og hófu að gera út þaðan. Þessir aðkomubátar öfluðu vel og aflinn var stór og góður þorskur og meðafli lítill. Árangur þessara báta spurðist út og í fyrrasumar komu einir 15 bátar af þessari gerð til Neskaupstaðar og reru þaðan, þar af 8-10 sem gerðu þaðan út  um lengri tíma. Þessir bátar komu frá Sandgerði, Garði, Siglufirði, Grindavík, Eskifirði og Húsavík. Mikil ánægja ríkti með aflabrögðin enn á ný en bátarnir fiskuðu mest í svonefndri Gullkistu sem er í norðanverðu Seyðisfjarðardýpi og fóru þeir gjarnan út á 30-40 mílur.

Í fyrra fiskaði Vonin frá Sandgerði mest þessara báta en hún hóf veiðar í maí-júní og reri í Kistuna alveg fram í desember. Afli Vonarinnar á þessum tíma var 494 tonn. Næstaflahæsti báturinn var síðan Hafdís frá Eskifirði með 440 tonn. Í heildina lönduðu yfirbyggðu línubátarnir 2400 tonnum af góðum þorski í Neskaupstað á síðasta ári. 

Núna í maímánuði byrjuðu línubátarnir að tínast austur.  Alls eru komnir 6 bátar og koma þeir frá Sandgerði, Garði, Siglufirði og Eskifirði. Hafa bátarnir verið að afla vel og sem dæmi lönduðu þeir samtals 50 tonnum sl. miðvikudag. 
 

Nánast allur línufiskurinn sem kemur á land í Neskaupstað er fluttur suður ef undan er skilið lítið brot aflans sem fer til sölu hjá Fiskmarkaði Austurlands.

Að sögn Hjálmars Einarssonar starfsmanns Norðfjarðarhafnar skapast mikil umsvif við höfnina með tilkomu línubátanna og telur hann að þessi atvinnustarfsemi skilji eftir sig verulegar tekjur í Neskaupstað. Bendir hann á að útgerðirnar hafi keypt beitusíld af Síldarvinnslunni fyrir einar 25 milljónir króna á síðasta ári. Þá þurfa bátarnir á margvíslegri þjónustu að halda, ekki síst þjónustu vélaverkstæðis. Sumar áhafnir bátanna hafa leigt sér íbúðarhúsnæði í Neskaupstað og má nefna að tvær áhafnir gera það um þessar mundir.