Fyrstu styrkþegarnir úr Afreksmannasjóði Guðmundar Bjarnasonar. Talið frá vinstri: María Rún Karlsdóttir, Særún Birta Eiríksdóttir og Þórarinn Örn Jónsson. Ljósm. Smári GeirssonFyrstu styrkþegarnir úr Afreksmannasjóði Guðmundar Bjarnasonar. Talið frá vinstri: María Rún Karlsdóttir, Særún Birta Eiríksdóttir og Þórarinn Örn Jónsson. Ljósm. Smári Geirsson
 
Í gær var íþróttafólki í fyrsta sinn úthlutað styrkjum úr Afreksmannasjóði Guðmundar Bjarnasonar. Samþykkt var að stofna sjóðinn á aðalfundi Síldarvinnslunnar árið 2015 og skyldi fyrirtækið árlega veita honum eina milljón króna til ráðstöfunar. Sjóðurinn var stofnaður í minningu Guðmundar Bjarnasonar sem þá var nýlátinn en Guðmundur var lengi virkur í íþróttastarfi auk þess að sitja í stjórn Síldarvinnslunnar og gegna starfi bæjarstjóra í Neskaupstað og síðar í Fjarðabyggð á árunum 1991-2006. Reglugerð fyrir sjóðinn var undirrituð í lok maímánaðar og er stjórn hans skipuð aðalstjórn Þróttar og einum fulltrúa frá Síldarvinnslunni. Í stjórn sjóðsins sitja nú Stefán Már Guðmundsson, Eysteinn Kristinsson og Guðlaug Ragnarsdóttir frá Þrótti og Guðný Bjarkadóttir frá Síldarvinnslunni. 
 
Tilgangur sjóðsins er að styrkja einstaklinga innan Þróttar sem náð hafa framúrskarandi árangri í íþrótt sinni. Á það við þegar viðkomandi hefur öðlast rétt til keppni á fjölþjóðlegum mótum, verið valinn í landslið, unnið Íslandsmeistaratitil, sett Íslandsmet eða skarað fram úr með eftirtektarverðum hætti. Sækja þarf um styrk úr sjóðnum og er ráðgert að styrkjum verði úthlutað tvisvar á ári. Næst verður úthlutað seint á þessu ári.
 
Þrír íþróttamenn sóttu um styrk úr sjóðnum fyrir fyrstu úthlutun og fengu umsóknir þeirra jákvæða umfjöllun. Veittu þeir styrkjum sínum móttöku í gær. Styrkþegarnir leggja allir stund á blak og hafa náð mjög góðum árangri í íþróttinni. Styrkþegarnir eru eftirtaldir: María Rún Karlsdóttir, Særún Birta Eiríksdóttir og Þórarinn Örn Jónsson. María Rún hefur leikið með A-landsliði Íslands að undanförnu en þau Særún Birta og Þórarinn með unglingalandsliðum.
 
Við afhendingu styrkjanna sagði Stefán Már Guðmundsson formaður Þróttar að sjóður eins og Afreksmannasjóðurinn væri gríðarlega mikilvægur fyrir norðfirskt íþróttafólk. Oft þyrftu þeir sem næðu góðum árangri í íþróttum að borga háar fjárhæðir vegna æfinga og keppnisferða og myndu styrkir úr sjóðnum létta verulega undir með iðkendunum. Gjarnan leitaði íþróttafólkið eftir styrkjum frá fyrirtækjum með góðum árangri en beiðnir um slíka styrki yrðu erfiðari eftir því sem þær yrðu fleiri. Hann taldi að Afreksmannasjóðurinn muni virka hvetjandi fyrir norðfirskt íþróttafólk og stuðla að því að allir sem næðu framúrskarandi árangri á íþróttasviðinu gætu notið þess án þess að hafa miklar fjárhagsáhyggjur. Vildi hann hvetja íþróttafólk innan Þróttar til að sækja um styrki úr sjóðnum ef það ætti möguleika á að fá úthlutað úr honum.