Í tilefni þess að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um fyrstu skipin sem Síldarvinnslan festi kaup á.
Árið 1965 hóf Síldarvinnslan útgerð með tveimur nýjum bátum sem smíðaðir voru í Austur-Þýskalandi. Barði NK kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað 5. mars tveimur mánuðum á eftir áætlun. Að öllu forfallalausu átti hann að koma í janúarbyrjun en skömmu fyrir jólin vildi það óhapp til að stórt skip sigldi á Barða þar sem hann var í reynsluferð á Elbufljóti. Skemmdist báturinn mikið við ásiglinguna og tók töluverðan tíma að lagfæra skemmdirnar.
Rúmlega tveimur mánuðum síðar kom Bjartur NK í fyrsta sinn til heimahafnar. Bjartur var systurskip Barða en þeir voru 264 tonn að stærð og einkum smíðaðir með síldveiðar í huga.
Skipstjóri á Barða var Sigurjón Valdimarsson en Filip Höskuldsson stóð við stjórnvöl á Bjarti. Auðvitað var bátunum vel tekið og fjölmenntu Norðfirðingar til að skoða þessi stóru og glæsilegu fley þegar þau lögðust í fyrsta sinn að bryggju í heimahöfn.
Lengi tíðkaðist að hagyrðingar og skáld settu saman fagnaðarljóð þegar ný skip bættust í flotann. Því miður hefur ekkert ljóð um Barða varðveist en Valdimar Eyjólfsson hagyrðingur í Neskaupstað orti meðfylgjandi í tilefni af komu Bjarts. Segist Valdimar í blaðapistli hafa verið veikur þegar Barði kom en þegar Bjartur kom var hann hressari og dreif sig um borð til að skoða hann. Um borð hitti hann góða menn sem báðu hann endilega að yrkja vísu um hið glæsilega fiskiskip. Enginn andi kom yfir hagyrðinginn á þeirri stundu en þegar hann kom heim settist hann niður og orti eftirfarandi:
Bjartur kom í heimahöfn
hlaðinn bestu kostum,
allvel fær í úfna dröfn,
illviðrum og frostum.
Semsagt fær í flestan sjó
farkostur hinn besti.
Honum gifta gefist nóg
og gæfa í veganesti.
Líkt er það með Barða og Bjart,
báðir í nýjum flíkum,
útlitið er ekki svart
með útgerðina á slíkum.