Í desember sl. fór fram úttekt á jafnlaunakerfi Síldarvinnslunnar og var það vottunarfyrirtækið BSI sem annaðist úttektina. Jafnlaunakerfið á að tryggja að launamál fyrirtækisins séu samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012 og er fyrirtækjum samkvæmt staðlinum skylt að sýna fram á að launum sé háttað í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Þetta er í sjötta sinn sem úttekt er gerð á jafnlaunakerfi Síldarvinnslunnar og staðfesti úttektin að kerfið uppfyllir kröfur staðalsins. Fram kom að óútskýrður launamunur innan fyrirtækisins væri 0,82% konum í hag. Það var fyrirtækið Intenta ehf. sem framkvæmdi tölfræðilega greiningu á launum félagsmanna. Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar er sáttur við niðurstöðu úttektarinnar. „Samkvæmt starfsmanna- og jafnréttisstefnu Síldarvinnslunnar á launasetning eingöngu að byggja á málefnalegum forsendum og það er afar ánægjulegt að fá það staðfest með skýrum hætti að kynbundinn launamunur sé ekki til staðar. Það liggur semsagt fyrir enn einu sinni að jafnréttisstefnu Síldarvinnslunnar er framfylgt í reynd og það er gott að það liggi fyrir. Rétt er að taka fram að vegna launakerfis sjómanna eru þeir undanskildir í umræddri úttekt,“ segir Hákon.