Þegar Beitir NK var á landleið í gærmorgun með 500 tonn af makríl urðu skipverjar varir við vaðandi makríl í stórum flekum utarlega á Papagrunni. Tómas Kárason skipstjóri tók myndband af makríltorfunum og fylgir það hér með. Tómas sagðist varla hafa séð jafn mikið af vaðandi makríl og þarna. „Það var glæsilegt að fylgjast með þessu og það var erfitt að sigla framhjá öllum þessum fiski með einungis 500 tonn um borð. Það var svo sannarlega freistandi að hefja veiðar á ný, en það var ekki hægt vegna þess að hjá okkur snýst allt um vinnslugetuna og að skapa sem mest verðmæti úr þeim afla sem komið er með að landi,“ sagði Tómas. „Makríllinn virtist vera á hraðri leið í austur- og norðausturátt þegar við áttum leið þarna um. Það var svo sannarlega gaman að upplifa þetta,“ sagði Tómas að lokum.