Beitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 640 tonn af makríl. Allur aflinn mun fara til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og má segja að þar sé nú makríl- og síldarvertíðin hafin fyrir alvöru. Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, segir að makríllinn sé stór og fallegur og ætti hann að henta vel til manneldisvinnslu. „Við fengum aflann í fjórum holum og það var aldrei togað lengur en í fjóra tíma. Veiðarnar hófust í Hornafjarðardýpinu en við enduðum í Skeiðarárdýpi þar sem fékkst afar fallegur fiskur. Á heimleiðinni sáum við vaðandi makríl uppi á grunnunum. Til dæmis var gaman að horfa yfir hafflötinn á Öræfagrunni, en þar var vaðandi makríll um allan sjó. Þetta lítur býsna vel út núna og vonandi er makríllinn mættur í miklum mæli. Vertíðin fór hægt af stað rétt eins og í fyrra en nú held ég að sé að færast fjör í leikinn. Það bendir allt til þess,“ sagði Tómas.
Börkur NK hélt til makrílveiða á sunnudagskvöld og fékk hann rúmlega 300 tonn í Lónsdýpinu í gær að sögn Hálfdanar Hálfdanarsonar skipstjóra.