Prinsinn, Bjartur NK, í höfn í Neskaupstað: Ljósm: Hákon Ernuson
Bjartur NK fór til þorskveiða eftir hádegi á föstudag og segir Steinþór Hálfdanarson skipstjóri að strax hafi orðið vart við loðnu austur við Seley en Bjartur NK er nú á veiðum á Herðablaðinu ásamt Gullver NS. Á miðunum er nú logn, sólskin og þunnt ósonlag „strákarnir þurfa að fara pakka sólarvörn ef þetta heldur áfram“ segir Steinþór. Nú eru hátt í 30 norskir loðnubátar rétt norðan við Bjart og Gullver. „Norsku bátarnir hafa allir verið að snúast hér í morgun enda nóg af loðnu að sjá, hérna má nú sjá kunnuleg skip eins og Malene S og Gardar“ segir Steinþór en Malene S er gamli Börkur NK og Gardar er gamli Beitir NK. Þrátt fyrir að nóg sé af loðnu þá virðist þorskurinn liggja á meltunni við botninn en Bjartur NK fékk 7 tonn eftir 2 tíma og Gullver 8 tonn eftir aðeins 40 mín.
Gullver NS landar á mánudagsmorgun á Seyðisfirði og Bjartur NK á þriðjudag í Neskaupstað. Loðnufrysting hófst á ný í Neskaupstað í dag þegar norska skipið Krossfjord kom með 425 tonn til vinnslu í fiskiðjuverið í hádeginu.