Áhöfnin á Beiti NK hefur híft og kastað á milli bræla. Ljósm: Tómas Kárason
 
Beitir NK hefur verið að kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni að undanförnu. Skipið hélt til veiða fyrir viku og eru nú komin 1700 tonn um borð. Tíðindamaður heimasíðunnar sló á þráðinn til Hálfdanar Hálfdanarsonar skipstjóra og spurðist fyrir um yfirstandandi veiðiferð. Hálfdan sagði að túrinn væri búinn að standa yfir í eina viku og veðrið hefði sannarlega verið misjafnt. „ Við höfum fengið leiðindabrælur og þurftum til dæmis að stoppa upp í einn og hálfan sólarhring. Við höfum tekið 5 hol og erum að draga frá 15 tímum og upp í 22 tíma. Síðan í gær hefur útlit verið betra en áður, það er mun meira að sjá og aflinn hefur verið að aukast. Við hífðum 400 tonn um miðjan dag í gær og 500 tonn núna fyrir hádegi. Trollið var aðeins rifið eftir síðasta hol og við erum nú að fara að kasta aftur,“ sagði Hálfdan að lokum.