SíldAð undanförnu hafa uppsjávarveiðiskipin sem landa afla sínum í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað borið meiri síld að landi en fyrr á vertíðinni enda langt komin með makrílkvóta sína. Fram undir þetta hefur megináherslan verið lögð á veiðar á makríl en reynt að forðast eftir föngum of mikla síld sem meðafla. Börkur NK er að landa 640 tonnum í fiskiðjuverið núna og er aflasamsetningin svofelld: 493 tonn síld, 85 tonn makríll og 67 tonn kolmunni. Áður landaði Beitir NK samtals 492 tonnum og þar af var síld 352 tonn, makríll 84 tonn og 55 tonn kolmunni.

Helgarfrí stendur fyrir dyrum í fiskiðjuverinu og miðast veiðarnar við það. Áhöfn Bjarna Ólafssonar AK er í nokkurra daga fríi og Beitir mun ekki halda til veiða á ný fyrr en á laugardag.

Af togurum Síldarvinnslunnar er það að frétta að Barði NK er á ufsaveiðum í Berufjarðarál og mun væntanlega landa eftir miðja næstu viku en Bjartur NK landaði 100 tonnum í Neskaupstað sl. þriðjudag og var uppistaða aflans þorskur. Bjartur heldur til veiða á ný í dag.