Peyjarnir á Vestmannaey VE í aðgerð. Ljósm. Valtýr AuðbergssonPeyjarnir á Vestmannaey VE í aðgerð.
Ljósm. Valtýr Auðbergsson
Veður hefur að undanförnu haft mikil áhrif á veiðar Vestmannaeyjaskipanna Vestmannaeyjar VE og Bergeyjar VE. Sannleikurinn er sá að þau hafa þurft að veiða í skjóli af Eyjunum og ekki komist á önnur mið vegna veðurs. Að sögn Arnars Richardssonar rekstrarstjóra eru skipstjórar skipanna enn ekki alveg sáttir við fiskiríið að undanförnu og telja að fiskgengd sé heldur minni en síðustu ár. Aflinn hefur að mestu verið þorskur en nú er beðið eftir að ýsa gangi á miðin. Bæði skipin leggja mikla áherslu á ýsuveiðar.
 
Arnar segir að skipin hafi gjarnan landað á tveggja daga fresti að undanförnu. Sem dæmi nefnir hann að Vestmannaey hafi haldið til veiða sl. fimmtudagsmorgun og landað síðla sama dag 20 tonnum. Farið var út að löndun lokinni og landað fullfermi eða um 70 tonnum á laugardag. Strax eftir löndun var farið út og komið að landi á sunnudagskvöld með 55 tonn. Landað var úr skipinu í gærmorgun og síðan var haldið til veiða á ný síðdegis í gær. Bergey hefur verið á svipuðu róli og Vestmannaey að undanförnu.