Óhagstætt veður truflar veiðar Síldarvinnsluskipa mjög um þessar mundir. Blængur NK er kominn til hafnar í Hafnarfirði og mun bíða þess að ofsaveðrið sem spáð er gangi niður. Ísfisktogararnir, Gullver NS, Smáey VE og Vestmannaey VE, eru allir á Austfjarðamiðum en gert er ráð fyrir að þeir muni halda til hafnar upp úr hádegi á morgun því þá mun vonskuveðrið ná austur samkvæmt spá. Vestmannaey landaði reyndar 60 tonnum á Seyðisfirði í gærkvöldi og hélt til veiða strax að löndun lokinni.
Kolmunnaskipin, sem eru að veiðum í færeysku lögsögunni, liggja í vari eða eru á leiðinni í var þannig að veðurofsi truflar einnig veiðar á þeim miðum.