Landað úr Blængi NK í gær. Ljósm. Smári Geirsson

Frystitogarinn Blængur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað á miðvikudagskvöld að aflokinni tæplega mánaðar veiðiferð. Aflinn er 655 tonn upp úr sjó og verðmæti hans er um 300 milljónir króna. Uppistaða aflans er ufsi, gulllax, ýsa og þorskur. Sigurður Hörður Kristjánsson skipstjóri segir að túrinn hafi verið nokkuð erfiður. „Það var einfaldlega þannig að veðrið stjórnaði þessari veiðiferð. Við hröktumst frá einum stað á annan og vorum alltaf að flýja veður. Við fórum nánast hringinn í kringum landið. Það voru einungis fjórir dagar í öllum túrnum þar sem vindur fór ekki yfir 15 metra og við vorum lengst í tvo daga á sömu miðunum. Menn eru svolítið þreyttir eftir svona brælutíð, það tekur á að vera í veltingi í tæpan mánuð. Skipið heldur til veiða á ný í kvöld og vonandi fá menn betra veður í þeirri veiðiferð,“ segir Sigurður Hörður.