Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum á þriðjudag. Bergur VE landaði þar síðan einnig fullfermi í gær. Afli skipanna var fyrst og fremst fallegur vertíðarþorskur. Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, segir að veiðin hafi gengið vel en veður hafi truflað. „Við byrjuðum á Ingólfshöfða en athuguðum síðan með ýsu í Meðallandsbugt með litlum árangri. Þá var haldið á Víkina og klárað. Aflinn er stór og góður þorskur og þessa dagana er alltaf að sjást meira af vertíðarfiski. Nú er spáin ekki spennandi. Það verða ríkjandi sunnan- og suðaustanáttir næstu daga og ölduhæð mikil,“ segir Egill Guðni.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir að þeir hafi tekið aflann á grunnslóð á Ingólfshöfða og Víkinni. „Það var fínasta veiði en leiðindaveður, haugasjór og ógeð. Það virðist vera helvítis lurkur framundan næstu vikuna en við sjáum til. Það er ekkert nýtt að febrúarveðrið sé leiðinlegt,“ segir Jón.
Gullver NS landaði 75 tonnum á Seyðisfirði í gær. Uppistaða aflans var þorskur og ýsa. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri kvartar einnig undan veðri. „Þessi túr var afspyrnuleiðinlegur veðurfarslega og við flúðum undan veðri af einum stað á annan. Við byrjuðum á Hvalbakshallinu og í Berufjarðarál en enduðum í Seyðisfjarðardýpi. Veðrið að undanförnu hefur verið umhleypingasamt og leiðinlegt en ávallt vonar maður að það fari að skána,“ segir Steinþór.
Gullver hélt á ný til veiða í gærkvöldi.