Ísfisktogararnir Gullver NS, Bergey VE og Vestmannaey VE héldu allir til veiða 2. janúar og er ráðgert að Gullver komi til löndunar á Seyðisfirði í fyrramálið. Ísfisktogarinn Bjartur NK heldur til veiða á miðnætti og frystitogarinn Barði NK á morgun. Börkur NK heldur til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni á miðnætti en færeysk skip hafa verið að fá þar þokkalegan afla um áramótin. Stefnt er að því að Beitir NK haldi til kolmunnaveiða um næstu helgi.
Grænlenska skipið Polar Amaroq mun væntanlega halda til loðnuveiða í íslensku lögsögunni á miðvikudag en skipið hefur legið við bryggju á Reyðarfirði yfir hátíðarnar.