Beitir kolmunna april 2015 HE

Beitir NK kemur til löndunar. Ljósm: Hákon Ernuson

Makrílvertíðin hefur gengið vel til þessa. Skipstjórarnir á Beiti og Berki eru sammála um að mikið hafi verið af makríl á þeim miðum sem þeir hafa helst sótt á og almennt hafi veiði gengið vel þó einstaka sinnum hafi hún dottið niður tímabundið. Beitir NK kom til Neskaupstaðar sl. föstudag og landaði 880 tonnum í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti sagði að túrinn hefði gengið einstaklega vel: „Við fengum þessi 880 tonn í tveimur holum og drógum einungis í fjóra tíma í hvort sinn. Þetta var hreinn makríll og stór og fallegur fiskur, 470 grömm að meðaltali. Við höfum að undanförnu verið að veiða norðaustur úr Hvalbak og það hefur oftast verið mikið að sjá þó komi daprir dagar af og til. Vertíðin hefur gengið býsna vel hjá okkur og öðrum skipum sem landa í Neskaupstað. Löndunarbið er algeng og og einnig er algengt að skipin haldi ekki strax til veiða að löndun lokinni. Þegar við komum í land var verið að landa úr Bjarna Ólafssyni AK og Margrét EA var komin til löndunar áður en lokið var við að landa úr Beiti,“ sagði Tómas.

               Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki tekur undir með Tómasi og segir makrílvertíðina hafa verið góða hvað veiðarnar varðar. Börkur kom til Neskaupstaðr í nótt með 680 tonn sem fengust í fimm holum austur úr Hvalbak. „Það er nægur makríll á þessum miðum og alls ekki minna en í fyrra, hins vegar er svolítið annað munstur á þessu til dæmis vegna þess að hitaskilin liggja öðruvísi. Í túrnum byrjuðum við að taka tvö hol og gerðum síðan hlé á veiðum en tókum svo þrjú hol til viðbótar áður en haldið var í land. Veiðarnar taka mið af afköstum vinnslunnar,“ sagði Hjörvar.

 Bæði Tómas og Hjörvar gátu þess að mikla síld hefði verið að sjá út af Austfjörðum að undanförnu. „Við höfum séð mikla síld í Norðfjarðar- og Seyðisfjarðardýpi og reyndar víðar, „ sagði Tómas. „Athyglisvert er að makrílaflinn er ekki eins síldarblandaður eins og oft hefur verið og afli okkar á Beiti á vertíðinni er 90% makríll,“ bætti Tómas við.

 Hjörvar sagði að síldin hefði eitthvað verið að hreyfa sig að undanförnu og færa sig í austur, fjær landinu.