Beitir NK í höfn undir norðurljósum. Ljósm: Helgi Freyr Ólason
Beitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 2.100 tonn af íslenskri sumargotssíld. Þá er Börkur NK á leið til Neskaupstaðar með 1.450 tonn. Þar með hafa Síldarvinnsluskipin lokið veiðum á íslenskri sumargotssíld á þessari vertíð. Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, segir að þessi síðasta veiðiferð hafi verið heldur löng vegna veðurs. „Veiðiferðin tók eina sex daga en við vorum bara um þrjá sólarhringa að veiðum. Það gerði tvisvar bölvaða brælu og þá var legið undir Reykjanesi og í höfn í Reykjavík. Veiðarnar fóru fram utarlega í Faxadýpinu og undir lokin urðum við varir við töluverða síld,“ segir Tómas.
Næst á dagskrá hjá Beiti og Berki er kolmunnaveiði. Bjarni Ólafsson hefur þegar hafið kolmunnaveiðar og einnig Polar Amaroq.