Beitir NK á loðnumiðunum úti fyrir Patreksfirði í gær. Ljósm: Helgi Freyr Ólason
Loðnuvertíðin sem nú er að ljúka hefur um margt verið heldur óvenjuleg og fyrir nokkrum árum hefði þurft að segja mönnum það tvisvar að síðustu farmar vertíðarinnar fengjust samtímis annars vegar á Skjálfanda og hins vegar út af Patreksfirði. Beitir NK lauk veiðum í gær en hann fékk 1.400 tonn út af Patreksfirði. Vilhelm Þorsteinsson EA var á sömu slóðum og Beitir. Hann fékk 300 tonn í fyrsta kasti en sprengdi síðan og er á leið til Neskaupstaðar rétt eins og Beitir.
Polar Amaroq kastaði tvisvar á Skjálfanda í gær og fyllti, en áður höfðu Polarmenn fyllt frystilestar skipsins. Hrognafylling loðnunnar sem veiðist fyrir norðan er 21% en loðnan er heldur smá. Gert er ráð fyrir að Polar Amaroq landi á morgun.
Heimasíðan hafði samband við Sturlu Þórðarson, skipstjóra á Beiti í morgun, en þá var skipið statt út af Skagafirði. „Það fengust mjög góð köst þarna út af Patreksfirði. Sumir fengu of mikið og sprengdu. Þetta er fínasta loðna sem þarna er á ferðinni og hún ætti að henta vel til hrognatöku. Þarna er um vestangöngu að ræða og menn kláruðu líka vertíðina í fyrra á þessum slóðum. Við förum hringinn í kringum landið í þessum túr, en við lönduðum að vísu í Helguvík um helgina,“ sagði Sturla.
Gert er ráð fyrir að skipin haldi til kolmunnaveiða vestur af Írlandi nú þegar veiðum á loðnuvertíð er lokið. Bjarni Ólafsson AK hélt reyndar til kolmunnaveiða í gær.