71677674 506317843259755 8856964047505981440 n

Gott síldarhol hjá Beiti NK. Ljósm. Helgi Freyr Ólason.

               Nú er veiðum á norsk-íslenskri síld lokið hjá þeim skipum sem leggja upp afla hjá fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Margrét EA er á landleið með 900 tonn og mun hún væntanlega koma til hafnar síðdegis í dag. Þá er Börkur NK einnig á landleið með 900 tonn og mun hann koma til hafnar á morgun. Skipin hafa fundið fyrir því á landleiðinni að vetur konungur er að taka völdin. Barkarmenn sáu vindmælinn fara í 40 metra en þeir á Margréti sáu hann fara í 47 metra. Margrétin þurfti að stoppa í eina sex tíma í nótt vegna veðursins og var þess beðið að lægði.

                Í alla staði má segja að síldarvertíðin hafi gengið vel hjá Síldarvinnslunni. Veiðar fóru lengi vel fram skammt austur af landinu og veður var hagstætt. Þá hefur vinnslan verið samfelld alla vertíðina. Það voru fjögur skip sem sáu fiskiðjuverinu fyrir hráefni en það voru Börkur NK, Beitir NK, Bjarni Ólafsson AK og Margrét EA. Einnig hefur Hákon EA landað frystri síld í Neskaupstað.