Bergey VE og Vestmannaey VE lönduðu báðar fullfermi í Vestmannaeyjum. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogarinn Bergey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum í fyrradag. Systurskipið Vestmannaey VE kom til hafnar þá um kvöldið og landaði síðan fullfermi í gær. Afli Bergeyjar var blandaður og fékkst hann í Háfadýpinu, á Péturseynni og á Víkinni. Vestmannaey fiskaði á Víkinni og á Ingólfshöfða og var aflinn mest þorskur. Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að nú sé að koma haustástand á miðunum fyrir sunnan landið. „Við vorum þrjá daga að fylla. Veiðin var mun rólegri en hún hefur verið en alls ekki slæm. Það er að koma haustástand og þá dregur heldur úr veiðinni. Við þekkjum þetta vel og nú fer að líða að því að við förum að fiska annars staðar og þá einkum fyrir austan land. Við sjáum til hvernig þetta þróast á næstunni,“ segir Birgir Þór.