Afar góð loðnuveiði hefur verið út af Garðskaga og á Faxaflóa síðustu daga. Skipin hafa verið að fá stór köst og verið fljót að fylla sig. Nú er svo komið að sum þeirra þurfa að sigla ansi langt til löndunar. Til dæmis er Barði NK á leið til Skagen í Danmörku með 2.200 tonn og Beitir NK á leið til Seyðisfjarðar með 3.200 tonn. Grænlenska skipið Polar Ammassak, sem gjarnan landar hjá Síldarvinnslunni, er síðan á leið til Vopnafjarðar með 2.150 tonn. Kannað hefur verið með löndun í Noregi en þangað berst bæði loðnu- og kolmunnaafli og því alllöng löndunarbið. Sömu sögu er reyndar að segja frá Færeyjum og Danmörku.
Vegna þessarar stöðu þarf að stýra veiðum loðnuskipanna og þurfa þau oft að bíða á miðunum áður en þau hefja veiðar. Í morgun voru Vilhelm Þorsteinsson EA og Polar Amaroq að hefja veiðar og Bjarni Ólafsson AK mátti byrja að kasta eftir hádegið. Börkur NK var að koma á miðin og mun ekki hefja veiðar strax.
Í gær sendi Hafrannsóknastofnun frá sér tilkynningu um að fallið sé frá tilmælum um að 2/3 af nýúthlutuðum viðbótarkvóta verði veiddur fyrir norðan land enda komið í ljós að loðnan sem fannst fyrir norðan sé á göngu vestur fyrir land.
Gert er ráð fyrir að hrognavinnsla hefjist í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað um helgina.