Frystitogarinn Blængur NK kom til hafnar í Neskaupstað á mánudagskvöld að lokinni mánaðar veiðiferð. Aflinn var 633 tonn upp úr sjó eða tuttugu þúsund kassar. Uppistaða aflans var grálúða, ýsa og ufsi. Heimasíðan ræddi við Sigurð Hörð Kristjánsson skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. „Ég held að aldrei hafi verið veitt jafn víða. Það var í reyndinni farið allt í kringum landið. Við byrjuðum fyrir austan, síðan var farið á Selvogsbankann og eins var veitt úti fyrir Norðurlandinu. Lengst var þó verið fyrir vestan. Helmingurinn af túrnum fór í að leita að ufsa með harla litlum árangri. Ufsinn reynist öllum afskaplega erfiður um þessar mundir en hinsvegar virðist vera gott ástand á öðrum stofnum og þar vil ég til dæmis nefna ýsu og karfa. Þrátt fyrir slaka ufsaveiði gekk túrinn alveg þokkalega,“ segir Sigurður Hörður.
Gert er ráð fyrir að Blængur haldi á ný til veiða í kvöld.