Frystitogarinn Blængur kom til Neskaupstaðar í gær að aflokinni 34 daga veiðiferð. Aflinn í veiðiferðinni var 530 tonn upp úr sjó og verðmæti hans er 275 milljónir króna. Heimasíðan ræddi stuttlega við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. „Það var veitt alveg frá Lónsdýpinu og vestur á Hampiðjutorg. Lengst var verið á Hampiðjutorginu. Uppistaða aflans er grálúða og það þurfti að hafa mikið fyrir henni. Veiðin var í sannleika sagt ekki mikil og það eru mörg skip að eltast við lúðuna, nánast allur frystitogaraflotinn. Fyrir utan lúðuna samanstendur aflinn af þorski, ufsa og karfa. Þessi túr var í lengra lagi og veðrið var býsna rysjótt, suðvestanáttin er ekki skemmtileg á sjónum. Nú er sjómannadagur framundan og síðan verður haldið á ný til veiða á mánudag,“ segir Bjarni Ólafur.