Bergey VE. Ljósm. Egill Guðni Guðnason

Ísfisktogarinn Bergey VE kom til Neskaupstaðr til löndunar í gær. Afli skipsins var um 63 tonn og var hann blandaður; þorskur, ýsa, ufsi og karfi. Heimasíðan ræddi við Jón Valgeirsson skipstjóra og spurði fyrst út í tíðarfarið. „Það er hægt að segja að tíðarfarið hafi verið rysjótt í veiðiferðinni og stundum reyndar skítabræla. Við létum þó veðrið aldrei stoppa okkur og það var veitt allan tímann. Við lönduðum á Djúpavogi 28. október og fórum þaðan suður í Skeiðarárdýpi þar sem við tókum ufsa og karfa. Síðan var haldið austur á Skrúðsgrunn þar sem fékkst ýsa og loks í Litladýpi þar sem veiddist þorskur. Þrátt fyrir veðrið má segja að veiðiferðin hafi gengið þokkalega. Við reiknum ekki með að halda til veiða á ný fyrr en á fimmtudag eða föstudag,“ segir Jón.