Verið að fylla frystilest Polar Amaroq af frosinni loðnu. Ljósm. Geir ZoёgaVerið að fylla frystilest Polar Amaroq af frosinni loðnu. Ljósm. Geir ZoёgaGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq kom til Neskaupstaðar í morgun með fullfermi af frosinni loðnu. Skipið hefur verið í loðnuleiðangri í samvinnu við Hafrannsóknastofnun og leitaði loðnu út af Þverálshorni, á Grænlandssundi og úti fyrir Norðurlandi. Hafði skipið heimild til að taka sýni með flotvörpu og fékkst allur aflinn í þremur stuttum holum en eins voru tekin sýni fyrir norðan land. Geir Zoëga skipstjóri segir að þessi loðnuleitartúr hafi gengið afskaplega vel og samvinnan við Hafrannsóknastofnun hafi verið einstaklega góð. „Við byrjuðum að leita fyrir vestan, út af Þverálshorni og á Grænlandssundinu, og skemmst frá að segja fundum við þar mjög mikla loðnu. Við komumst alls ekki yfir allt það svæði sem loðnu var að finna á þarna vesturfrá. Og þetta var stór og fín loðna, það sást á aflanum sem við fengum. Þá könnuðum við svæðið úti fyrir Norðurlandi og þar er að finna dreifða loðnu allt austur á Kolbeinseyjarhrygg. Við tókum einnig sýni úr þeirri loðnu. Sannast sagna finnst okkur þetta líta afar vel út og ekkert fer á milli mála að það er mikið af loðnu þarna á ferðinni. Við hér um borð erum alsælir með þennan túr, bæði vegna þess að hann gefur fyrirheit um góða loðnuvertíð og eins vegna þess árangurs sem við náðum í vinnslunni um borð. Það tók okkur einungis fjóra daga að fylla skipið af frosinni loðnu en það eru 655 tonn. Meðalvinnslan var 163 tonn á sólarhring og í túrnum var sett met í sólarhringsafköstum – 168 tonn. Hér um borð ríkir bara gleði,“ sagði Geir að lokum.