Í gær bauð Síldarvinnslan fyrrverandi starfsmönnum, eldri borgurum og fulltrúum viðskiptafyrirtækja til veislu í félagsheimilinu Egilsbúð í tilefni sextugsafmælis fyrirtækisins. Alls sóttu rúmlega 150 gestir afmælisveisluna og nutu þeirrar dagskrár sem boðið var upp á. Nemendur Tónskóla Neskaupstaðar fluttu jólatónlist og áttu stóran þátt í að skapa notalega stemmningu á samkomunni. Smári Geirsson sagði frá bókinni Síldarvinnslan í 60 ár sem kom formlega út í gær og Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri gerði grein fyrir stöðu Síldarvinnslunnar um þessar mundir. Guðmundur R. Gíslason stýrði veislunni en boðið var upp á glæsilegt afmæliskaffi. Góðar kveðjur til afmælisbarnsins bárust víða að.
Undir lok samkomunnar var LungA – skólanum á Seyðisfirði, Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað og Myndlistarsafni Tryggva Ólafssonar afhentir myndarlegir styrkir frá Síldarvinnslunni.
Að samkomunni lokinni fengu allir gestir afmælisrit Síldarvinnslunnar að gjöf ásamt fötu af jólasíld sem mörgum þykir nauðsynlegt að hafa á borðum yfir jólahátíðina.