Nemendur að störfum í hárdeild VA. Ljósm. Viðar GuðmundssonHinn 7. júní lauk viku kynningu á iðn- og verknámi í Verkmenntaskóla Austurlands. Kynningin var sótt af 54 nemendum Vinnuskóla Fjarðabyggðar sem allir luku námi í 9. bekk grunnskólans sl. vor. Auk Verkmenntaskólans og sveitarfélagsins Fjarðabyggðar  stóðu sjö fyrirtæki að kynningarvikunni og var Síldarvinnslan eitt þeirra.

Þetta kynningarátak þótti heppnast afar vel, nemendur voru áhugasamir og kennarar ánægðir. Nemendurnir störfuðu í fjóra daga á verkstæðum skólans og unnu þar að ýmsum verkefnum í málmdeild, trédeild, rafdeild og hárdeild skólans. Jafnfram kynntu áfangastjóri og námsráðgjafi Verkmenntaskólans námsleiðir á sviði iðn- og tæknináms. Á lokadegi kynningarvikunnar var efnt til uppskeruhátíðar en þá gátu foreldrar og forráðamenn nemendanna komið og skoðað ýmsa smíðisgripi sem orðið höfðu til í kynningarvikunni og eins gátu þeir virt fyrir sér afrakstur vinnu nemendanna í hárdeildinni. Þá heimsóttu einnig fulltrúar þeirra fyrirtækja sem styrkt höfðu kynningarverkefnið skólann og fræddust um árangurinn.

Aðstandendur kynningarverkefnisins eru  sammála um að hér sé fundið gott fyrirkomulag til að fræða nemendur á grunnskólastigi um eðli og innihald iðn- og tæknináms en almennt eru menn þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að efla slíkt nám og hefja það til vegs og virðingar í samfélaginu.