Ísfisktogarinn Gullver NS landaði í síðasta sinn á árinu sl. þriðjudag. Skipið var með fullfermi eða 106 tonn og var þorskur uppistaða aflans. Árið hefur verið afar gott hjá Gullver. Heildaraflinn á árinu nemur 6.090 tonnum og er verðmæti aflans 1.415 milljónir króna. Ársafli skipsins er 28 tonnum minni en í fyrra en það ár var það langbesta í sögu skipsins hvað afla varðar. Verðmæti skipsins í ár eru hins vegar 190 milljónum króna meiri en á síðasta ári. Það verður því vart annað sagt en að ársútkoman hjá Gullversmönnum sé glæsileg.
Skipstjórar á Gullver eru Þórhallur Jónsson og Rúnar L. Gunnarsson. Í spjalli við Rúnar kom fram að ánægja ríkti með árið. „Þetta er afar fínt ár sem nú er að kveðja, en þó dró aðeins úr aflabrögðunum undir lok ársins. Menn verða að vera afar ánægðir með útkomuna. Það er vart hægt að biðja um mikið betra,“ segir Rúnar.