Nú ætti loðnuvertíð að vera að hefjast og loðnuspenningur í hámarki, en því er ekki að heilsa. Ekki er úr vegi að líta stuttlega yfir sögu loðnuveiðanna og velta fyrir sér þróuninni. 
 
Fyrstu fyrirliggjandi tölurnar um loðnuveiði við landið eru frá árinu 1963. Þá komu þúsund tonn á land. Loðnuveiðarnar fóru hægt af stað en jukust mikið eftir 1973, en þá berast yfir 400 þúsund tonn á land. Síðan fór aflinn upp undir milljón tonn árið 1979. Almennt mátti treysta á loðnuveiði þegar þarna var komið sögu en þó voru undantekningar frá því eins og á árinu 1982 þegar lítil loðna var veidd og á árinu 1991 þegar veiðin var ekki nema liðlega 250 þúsund tonn. Stærsta loðnuárið var hins vegar árið 1997 en þá komu 1,3 milljón tonn á land.
 
Síðustu ár hefur veiðin verið mun minni en áður. Árið 2009 fór veiðin niður í 14 þúsund tonn og frá þeim tíma má segja að loðnuvertíðir hafi verið svipur hjá sjón.
 
Nú er eðlilegt að spurt sé hverju er um að kenna? Hvers vegna skilar loðnan sér ekki eins og hún gerði áður? Er stærri þorskstofn að taka meira til sín? Hvaða áhrif hefur fjölgun hvala á stofninn? Er hlýnun sjávar að valda breytingum á göngumynstri loðnunnar?
 
Við upptöku á nýrri aflareglu á árinu 2015 lá fyrir að stórauka þurfti rannsóknir á loðnustofninum til að tryggja skynsamlega nýtingu hans til framtíðar. Loðnan hefur orðið verðmætari og verðmætari með aukinni áherslu á vinnslu hennar til manneldis og áhrif hennar í hagkerfinu hafa aukist. Loðnuhrogn seljast dýru verði og eins fryst hrygna ásamt því að verð á mjöli og lýsi hefur hækkað mikið. Samstarf útgerða og Hafrannsóknastofnunar við loðnurannsóknir undanfarinna ára hefur verið farsælt og hafa útgerðirnar samræmt búnað í skipum sínum við búnað hafrannsóknaskipanna þannig að þau megi nýta við rannsóknir og mælingar á stofninum.
 
Þrátt fyrir að hin nýja aflaregla kalli á auknar rannsóknir virðast menn ekki hafa gert ráð fyrir þeim kostnaðarauka sem auknar rannsóknir fela í sér. Nú er mikilvægt að menn setjist niður, fari yfir stöðu mála og geri áætlanir um loðnurannsóknir á komandi tímum. Það gengur ekki þegar komið er að loðnuvertíð að allt sé í óvissu varðandi það hver eigi að kosta rannsóknir á einhverjum dýrmætasta nytjastofni þjóðarinnar.
 
Hinn 7. janúar sl. náðist samkomulag um að Hafrannsóknastofnun greiði helming kostnaðar við loðnuleit og mælingar veiðiskipa. Munu útgerðirnar leggja til tvö skip sem munu leita með rannsóknaskipi Hafrannsóknastofnunar. Gert er ráð fyrir að leit hefjist eftir helgi og munu þá Hákon EA og Bjarni Ólafsson AK taka þátt í henni.  
 Á meðfylgjandi mynd má glögglega sjá þróun loðnuveiðanna við landið og hve þær hafa verið sveiflukenndar. Eins má sjá meðalveiði hvers áratugar og þá sést glögglega hve loðnuveiðin síðasta ártug hefur verið döpur miðað við hina fyrri. Mikið hefur verið gert á síðari árum til að auka hagkvæmni veiða og vinnslu. Sem dæmi má nefna að árið 2003 voru veiðiskipin 39 talsins en nú eru þau 17 og árið 2003 voru loðnuverksmiðjur 19 talsins en nú einungis 10. Þá hefur manneldisvinnsla aukist mikið og geta stærstu vinnslurnar fryst um 900 tonn á sólarhring.Á meðfylgjandi mynd má glögglega sjá þróun loðnuveiðanna við landið
og hve þær hafa verið sveiflukenndar. Eins má sjá meðalveiði
hvers áratugar og þá sést glögglega hve loðnuveiðin síðasta ártug
hefur verið döpur miðað við hina fyrri. Mikið hefur verið gert á
síðari árum til að auka hagkvæmni veiða og vinnslu. Sem dæmi má
nefna að árið 2003 voru veiðiskipin 39 talsins en nú eru þau 17 og
árið 2003 voru loðnuverksmiðjur 19 talsins en nú einungis 10. Þá hefur
manneldisvinnsla aukist mikið og geta stærstu vinnslurnar fryst um 900 tonn á sólarhring.