Togararnir hafa hafið veiðar eftir verkfall.Togararnir hafa hafið veiðar eftir verkfall. Ljósm. Þorgeir BaldurssonVerkfall sjómanna hófst sl. fimmtudagskvöld og héldu þá öll veiðiskip til hafnar. Í gær var síðan verkfalli frestað en þá náðust samningar á milli Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur annars vegar og Sjómannafélags Íslands hins vegar. Áður höfðu verið undirritaðir samningar á milli Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjómannasambands Íslands. Verkföllum sjómanna hefur því verið frestað til 14. desember og nú fer í hönd kynning á samningunum og síðan atkvæðagreiðsla. 
 
Strax í gærkvöldi hófu veiðiskipin að streyma á miðin. Vestmannaey og Bergey héldu til veiða frá Vestmannaeyjum klukkan átta í gærkvöldi og um líkt leyti lét Gullver úr höfn á Seyðisfirði. Barði NK sigldi út Norðfjörð klukkan tíu. Síldarskipin bíða átekta en óhagstætt veður er á síldarmiðunum fyrir vestan land. Börkur og Beitir eru því enn í höfn í Neskaupstað og Bjarni Ólafsson á Akranesi. Gert er ráð fyrir að Bjarni Ólafsson haldi fyrstur til veiða og gæti það gerst á morgun.