Í dag hófst verknámsvika í Verkmenntaskóla Austurlands og mun henni ljúka 12. júní. Í verknámsvikunni fer fram kynning á iðnnámi og munu allir þeir sem luku námi í 9. bekk grunnskóla í Fjarðabyggð í vor og eru skráðir í Vinnuskóla Fjarðabyggðar hefja sumarstarfið með því að sækja kynninguna. Í verknámsvikunni eiga ungmennin kost á að kynnast námi og námsaðstöðu í fjórum deildum Verkmenntaskólans: málmdeild, trédeild, rafdeild og hárdeild. Mun hver nemandi eiga kost á að velja sér tvær deildir til að kynnast og vinna að ýmsum verkefnum í þeim undir traustri leiðsögn kennara Verkmenntaskólans. Verkefnunum verður sinnt í tvo daga í hvorri deild en á lokadegi verknámsvikunnar verður veitt almenn fræðsla um iðnnám auk þess sem haldin verður uppskeruhátíð þar sem foreldrum og velunnurum verður boðið að koma og skoða afrakstur nemendanna.

Þetta kynningarstarf er samvinnuverkefni Verkmenntaskóla Austurlands og sveitarfélagsins Fjarðabyggðar og er það stutt af sjö fyrirtækjum sem starfa í Fjarðabyggð, þar á meðal Síldarvinnslunni. Verknámsvikan var haldin í fyrsta sinn í fyrra og þótti takast afar vel að mati allra hlutaðeigandi. Sérstaklega er fróðlegt að skoða ummæli ýmissa nemenda sem sóttu verknámsvikuna þá, en fram kom í þeim að kynningin hefði opnað augu þeirra fyrir nýjum og spennandi námsmöguleikum á framhaldsskólastigi. Alls munu 46 nemendur sækja kynninguna að þessu sinni og fást við spennandi verkefni  við góðar aðstæður undir faglegri leiðsögn.

Oft er rætt um mikilvægi þess að auka kynningu á iðn- og tækninámi og upplýsa börn og ungmenni um þá möguleika sem slíkt nám getur gefið. Á iðn- og tæknisviðinu liggja margvísleg tækifæri fyrir ungt fólk, ekki síst í Fjarðabyggð þar sem starfa öflug fyrirtæki á sviði iðnaðar og sjávarútvegs. Það er von allra þeirra sem standa að verknámsvikunni að hún efli áhuga nemenda á iðn- og tækninámi og leiði til þess að fleiri íhugi að afla sér menntunar á því sviði í framtíðinni.

Verknámsvikan hefur vakið töluverða athygli víða um land og var verkefnið meðal annars kynnt á skólaþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var í nóvember sl.