Fyrir marga starfsmenn og velunnara Síldarvinnslunnar er jólasíld fyrirtækisins ómissandi hluti jólahátíðarinnar. Flestir telja að önnur síld komist ekki í hálfkvisti við Síldarvinnslusíldina. Starfsmenn fyrirtækisins hafa framleitt jólasíldina um áratuga skeið, fyrst undir stjórn Haraldar Jörgensens og síðan tók Jón Gunnar Sigurjónsson við af honum. Síldin er framleidd í takmörkuðu magni og fyrst og fremst ætluð til að gleðja starfsmenn fyrirtækisins og þá sem næst því standa.
Að sjálfsögðu hvílir leynd yfir þeim aðferðum sem notaðar eru við framleiðslu síldarinnar en þó er unnt að segja frá framleiðsluferlinu í grófum dráttum. Ferlið hefst á því að gæðasíldarflök eru skorin í hæfilega bita og í ár var það gert um miðjan september. Þegar skurðinum er lokið eru bitarnir settir í kör með saltpækli og þar eru þeir hafðir í um það bil einn sólarhring. Þá er síldin tekin úr körunum og sett í tunnur þar sem hún liggur í ediki í ákveðinn tíma. Loks er síldin látin liggja í sykurlegi og er magn sykursins algert lykilatriði varðandi það hvernig til tekst. Lokaþáttur framleiðsluferilsins felst í því að síldin er tekin úr sykurleginum og sett í fötur með lauk og tilheyrandi kryddi. Þegar síldin hefur legið í fötunum í nokkra daga er hún tilbúin til neyslu og þá er hátíð í bæ hjá mörgum.
Allur þessi framleiðsluferill byggir á þekkingu og mikilli næmni. Tímasetningar skipta höfuðmáli og grundvallaratriði er að síldin fái að liggja í hverjum legi í hárréttan tíma svo hið rétta bragð náist. Þegar kemur að lokastigum framleiðslunnar er kallað á útvalda menn til að bragða á síldinni og leggja dóm á hvernig til hefur tekist. Stundum þarf að gera viðbótarráðstafanir til að ná fram þeim miklu gæðum sem gerð er krafa um.
Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar, segir að sér lítist vel á síldina í ár. „Þetta er alger úrvalssíld og eins og venjulega er hún tekin úr því skipi sem kemur með besta hráefnið að landi. Ég held að fólk geti farið að hlakka til jólasíldarinnar í ár. Síldin er fyrst og síðast framleidd fyrir starfsfólk fyrirtækisns og ég er viss um að enginn á eftir að verða fyrir vonbrigðum með hana,“ segir Jón Gunnar.